Gróttumenn tóku liðsmenn ÍBV í kennslustund í 10. umferð Olísdeildar karla í handknattleik í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í dag. Lokatölur, 36:26, eftir að einnig munaði 10 mörkum að loknum fyrri hálfleik, 20:10. Grótta komst þar með upp fyrir KA og upp í níunda sæti deildarinnar með sjö stig eftir níu leiki. Eyjamenn, sem áttu þess kost að fara upp í annað sæti deildarinnar eru áfram í þriðja sæti með 14 stig.
Leikmönnum ÍBV féll allur ketill í eld strax í upphafi. Sóknarleikurinn var í handaskolum frá upphafi. Gróttumenn gengu á lagið. Þeir skoruðu fjögur fyrstu mörkin og átta af þeim fyrstu níu áður en tíu mínútur voru liðnar. Eyjamenn voru sem felmtri slegnir og náðu sér lítt á strik. Upp úr miðjum fyrri hálfleik var munurinn níu mörk, 13:4.
Gróttumenn léku sér að andstæðingi sínum eins og köttur að mús. Ekki bætti úr skák að Einar Baldvin Baldvinsson varði eins og berserkur og jók enn á raunir leikmanna ÍBV.
Erlingur Richardsson tók tvö leikhlé á fyrstu sextán mínútum leiksins til þess að berja baráttuanda í brjóst. Allt kom fyrir ekki. ÍBV var tíu mörkum undir í hálfleik, 20:10.
Leikmenn ÍBV reyndu hvað þeir gátu til að klóra í bakkann og koma til baka í síðari hálfleik. Baráttuglaðir leikmenn Gróttu sáu til þess að hleypa Eyjamönnum ekki upp á dekk.
Eftir slæman skell í vikunni á Selfossi þá tókst Gróttumönnum svo sannarlega að snúa við blaðinu og undirstrika enn einu sinni að þeir eru með hörkulið sem öllum andstæðingum ber að mæta af fullri alvöru. Vinnusemi og dugnaður leikmanna er til fyrirmyndar. Birgir Steinn Jónsson skoraði 11 mörk í 14 skotum. Hann er eitt dæmi um mann sem hefur blómstraði í umhverfinu vestur á Nesi.
Mörk Gróttu: Birgir Steinn Jónsson 11, Ólafur Brim Stefánsson 7, Andri Þór Helgason 5/2, Gunnar Dan Hynsson 5, Hannes Grimm 3, Ágúst Emil Grétarsson 2, Einar Baldvin Baldvinsson 2, Ívar Logi Styrmisson 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 17, 40,5%.
Mörk ÍBV: Kári Kristján Kristjánsson 8/2, Arnór Viðarsson, Dánjal Ragnarsson 4, Gabríel Martinez Róbertsson 2, Rúnar Kárason 2, Friðrik Hólm Jónsson 1, Dagur Arnarsson 1, Róbert Sigurðarson , Theodór Sigurbjörnsson 1.
Varin skot: Petar Jokanovic 12, 31,6% – Björn Viðar Björnsson 3, 27,3%.
Stöðuna og næstu leiki í Olísdeild karla má sjá hér.
Öll tölfræði leikja Olísdeildar er að finna hjá HBStatz.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.