Guðmundur Þórður Guðmundsson landsliðsþjálfari í handknattleik karla er sagður hættur þjálfun þýska 1. deildarliðsins MT Melsungen. Frá þessu er greint á vefsíðunni handballleaks á Instagram.
Melsungen hefur ekki staðfest brotthvarf Guðmundar Þórðar.
Þar segir ennfremur að Svíinn Robert Hedin taki við starfi Guðmundar hjá Melsungen.
Guðmundur Þórður tók við þjálfun MT Melsungen í byrjun mars 2020. Undir hans stjórn komst liðið í úrslit þýsku bikarkeppninnar í vor en tapaði úrslitaleiknum.
Eftir þrjár umferðir í þýsku 1.deildinni á leiktíðinni hefur Melsungen aðeins önglað í eitt stig eftir þrjá erfiða leiki gegn sterkum andstæðingum.
Uppfært: Af gefnu tilefni þá fylgir hér hlekkur á frétt í staðarmiðli í Þýskalandi sem birtist áður en frétt handbolta.is fór í loftið í kvöld.