Guðmundur Þórður Guðmundsson fyrrverandi landsliðsþjálfari Danmerkur og Íslands í handknattleik gefur lítið fyrir gagnrýni í sinn garð sem kemur fram í nýrri heimildarmynd um danska karlalandsliðið sem ber heitið Gullnu kynslóðirnar.
Guðmundur Þórður þjálfaði danska landsliðið frá 2014 og 2017 og gerði liðið að Ólympíumeisturum árið 2016. Var það í fyrsta sinn sem Danir unnu gullverðlaun í handknattleik karla og var það svo sannarlega langþráð. Þjálfaratíð hans hjá Handknattleikssambandi Danmerkur var ýmsum erfiðleikum háð.
Wilbek vildi reka Guðmund
Átti Guðmundur í deilum við forvera sinn í þjálfarastarfinu og þáverandi íþróttastjóra sambandsins, Ulrik Wilbek. Hann vildi samkvæmt því sem kemur fram í umfjöllun dönsku sjónvarpsstöðvarinnar TV 2 Sport reka Guðmund aðeins níu dögum áður en Danir unnu Frakka í úrslitaleik ÓL 2016. Um það var talsvert fjallað eftir leikana, m.a. í fjölmiðlum í Danmörku og á Íslandi.
Ræddi Wilbek við leikmenn og bar það undir þá að Guðmundur yrði rekinn með örskömmum fyrirvara. Að lokum var það hins vegar Wilbek sem þurfti að taka pokann sinn nokkru eftir Ólympíuleikana en Guðmundur Þórður hélt sínu striki út samningstímann, fram í mars 2017.
Sögðu álagið mikið og Guðmund ekki hlusta
Hans Óttar Lindberg Tómasson og Lasse Svan Hansen eru á meðal þeirra sem gagnrýna Guðmund í heimildarmyndinni.
Hans Óttar kvartaði yfir því að Guðmundur væri með tveggja tíma myndbandsfundi og tveggja tíma æfingar tvisvar á dag, sem hafi verið erfitt og að álagið hafi gert leikmenn taugaóstyrka.
Svan Hansen sagði Guðmund ekkert hafa viljað hlusta á leikmenn, sem hafi farið í taugarnar á þeim. „Það var bara ein leið og það var leið þjálfarans. Þetta snerist allt um hugmyndafræði Guðmundar.“
Ákveðnir viðmælendur baktöluðu mig
„Þegar ég horfði á þann hluta heimildarmyndarinnar sem fjallaði um mig og tímabilið 2014 til 2017, þegar ég þjálfaði liðið, upplifði ég það að ákveðnir viðmælendur hafi ákveðið að baktala mig. Sumt af því sem var sagt um myndbandsfundi og aukið æfingaálag er tóm þvæla, svo vægt sé til orða tekið.
Mér finnst það vera óforskammað að ég hafi ekki fengið tækifæri til þess að tjá mig í þessari mynd svo ég gæti svarað einhverjum af þeim spurningum sem fólk kann að hafa um þjálfaratíð mína. Ég er virkilega leiður yfir því að hafa ekki fengið tækifæri til þess að vera hluti af þessari mynd,“ sagði Guðmundur í samtali við TV2 Sport.
Hann var þá spurður hvort leikmenn mættu ekki segja frá upplifun sinni af þjálfaratíð sinni.
„Jú, en þá þurfa staðreyndir að vera á hreinu. Æfingaálag var aldrei neitt vandamál og fullyrðingar um það fara í taugarnar á mér,“ svaraði Guðmundur.
Heimildarmyndina má sjá í heild sinni hér fyrir neðan en umræðan um Guðmund hefst í kringum 32:40.




