Guðmundur Þórður Guðmundsson fagnaði sigri í kvöld með sínum liðsmönnum í Fredericia HK þegar þeir lögðu lærisveina Arnórs Atlasonar í TTH Holstebro, 27:24, þegar 12. umferð dönsku úrvalsdeildarinnar hófst. Leikið var í thansen ARENA í Fredericia.
Einar Þorsteinn Ólafsson lék að vanda með Fredericia og stóð fyrir sínu í vörninni. Fredericia endurheimti annað sæti úrvalsdeildarinnar með sigrinum, alltént að sinni. Liðið hefur 17 stig að loknum 12 leikjum, einu stigi ofar en Mors Thy sem hefur leikið ellefu sinnum. Aalborg Håndbold er efst með 22 stig að loknum 11 leikjum.
Sebastian Frandsen átti enn einn stórleikinn á leiktíðinni í marki Fredericia. Hann varði 16 skot, 42%. Sander Heieren stóð Frandsen ekki langt að baki, varði 15 skot í marki Holstebro.
Arnór og félagar í TTH Holstebro er í áttunda sæti með níu stig eftir 12 leiki. Holstebro var þremur mörkum undir að loknum fyrri hálfleik, 15:12, í thansen ARENA.
Þrjú mörk og sjö stoðsendingar
Í hinum leik kvöldsins í dönsku úrvalsdeildinni vann Kolding lið Lemvig, 29:24. Vilhelm Poulsen landsliðsmaður Færeyja og fyrrverandi leikmaður Fram skoraði þrjú mörk fyrir Lemvig og gaf sjö stoðsendingar.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni og fleiri deildum í evrópskum handknattleik.