- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Guðmundur með ódrepandi keppnisskap

Guðmundur Þórður Guðmundsson þjálfari Fredericia HK. Ljósmynd/Hafliði Breiðfjörð
- Auglýsing -

Það voru nokkuð óvæntar fréttir sem bárust úr herbúðum Handknattleikssambands Íslands í Laugardal síðdegis, þriðjudaginn 21. febrúar 2023; Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari Íslands var hættur eftir fimm ára starf, en áður hafði hann verið landsliðsþjálfari 2001-2004 og 2008-2012, en þá vann hann sér það til frægðar 2008 að koma heim frá ÓL í Peking í Kína með strákana sína; með silfurverðlaunapening um hálsinn. Þeir komu heim frá EM í Austurríki tveimur árum síðar með bronspening um hálsinn. Guðmundur, sem er einn hæfasti þjálfari Íslands, vann sér inn gullverðlaun sem landsliðsþjálfari Dana á Ólympíuleiknum 2016 og silfurpening sem landsliðsþjálfari Bahrain á Asíuleikunum 2018. Guðmundur var líka einn af Gulldrengjunum í París 1989. Pistlahöfundur hefur skrifaði nokkrar greinar um afrek Guðmundar. Pistillinn hér er skrifaður upp úr þeim. Hann á heima hjá handknattleiksunnendum og lesendum Handbolti.is á þessum tímamótum; 

Guðmundur Þórður Guðmundsson
Fæddur: 23. desember 1960, Reykjavík.
Ferill – leikmaður:
1979-1992 Víkingur
1992-1995 Afturelding
1980-1990 landsleikir/mörk: 231 – 354
Þjálfari:
1989-1992: Víkingur
1992-1995: Afturelding
1995-1999: Fram
1999-2001: Bayer Dormagen, Þýskaland
2001-2004: Landslið Íslands
2005-2007: Fram
2008-2012: Landslið Íslands
2009-2010: GOG Svendborg, Danmörk
2010: AG København, Danmörk
2010-2014: Rhein-Neckar Löwen, Þýskaland
2014-2017: Landslið Danmerkur
2017-2018: Landslið Bahrain
2018-2023: Landslið Íslands
Þjálfaði samhliða landsliðinu:
2020-2021: Melsungen, Þýskaland
2022- : Fredericia, Danmörk
Árangur:
Íslandsmeistari (7): 1980, 1981, 1982, 1983, 1986, 1987 sem leikmaður með Víkingi. 2006 sem þjálfari Fram.
Bikarmeistari (4): 1983, 1984, 1985, 1986 sem leikmaður Víkings.
Evrópumeistari (1): 2013 (EHF-keppnin) sem þjálfari Rhein-Neckar Löwen.
Ólympíuleikar: 1984 Los Angeles (6. sæti), 1988 Seoul (8), sem leikmaður. Sem þjálfari 2004 Aþena (9), 2008 Peking (2), 2012 London (5), 2016 Ríó (1), sem þjálfari Dana.
Heimsmeistarakeppni: 1986 Sviss (6. sæti), 1990 Tékkóslóvakía (10), sem leikmaður. Sem þjálfari: 2003 Portúgal (7), 2007 Þýskaland (8) – aðstoðarþjálfari, 2011 Svíþjóð (6), 2019 Danmörk/Þýskaland (11), 2021 Egyptaland (20), 2023, Svíþjóð/Pólland (12).
Þjálfari Danmerkur 2015 í Katar (5), 2017 í Frakklandi (10).
B-keppni: 1981 Frakkland (7), 1983 Holland (7), 1989 Frakkland (1).
Evrópumót: Sem þjálfari Íslands: 2002 Svíþjóð (4. sæti), 2004 Slóvenía (13), 2008 Noregur (11) – aðstoðarþjálfari, 2010 Austurríki (3), 2012 Serbía (10), 2020 Svíþjóð, Noregur, Austurríki (11), 2022 Ungverjaland/Slóvakía (6).
Sem þjálfari Danmerkur: 2016 Pólland (6).
Asíuleikarnir í Suður-Kóreu: Þjálfari Bahrain 2018 (2. sæti).

Guðmundur Þórður er í hópi litríkustu handknattleiksmanna og þjálfara Íslands – geysilegur keppnismaður, sem sættir sig ekki við ósigur. Guðmundur hefur alltaf tekið íþrótt sína alvarlega, verið metnaðarfullur og kappkostað að gera ekki sömu mistökin tvisvar. „Guðmundur var mjög góður í hóp – drengur góður,“ sagði Hilmar Björnsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari Íslands, sem valdi Guðmund í landslið sitt rétt áður en hann varð 20 ára í desember 1980. „Guðmundur var mjög fljótur og duglegur leikmaður –  var klókur að koma knettinum fram hjá markvörðum úr horninu.“

 Þegar Guðmundur Þórður, sem var hornamaður, var 18 ára munstraður sem viðvaningur hjá pólska þjálfaranum Bogdan Kowalczyk 1979, var valinn maður í hverju rúmi á „Víkingaskipi“ Bogdans – landsliðsmennirnir Jens Einarsson, Kristján Sigmundsson, Ólafur Jónsson, Páll Björgvinsson, Sigurður Gunnarsson, Árni Indriðason, Þorbergur Aðalsteinsson, Erlendur Hermannsson, Steinar Birgisson og Sigfús Guðmundsson.

 Guðmundur Þórður var tilbúinn í slaginn og margir reyndir kappar sögðu honum til. Víkingar fögnuðu sínum öðrum meistaratitli (áður 1975) 1980 og urðu meistarar fjögur ár í röð. Víkingar urðu bikarmeistarar fjögur ár í röð, 1983 til 1986, en það ár unnu þeir tvöfalt eins og 1983. Guðmundur Þórður var orðinn fyrirliði Víkingsliðsins 1986 og var hann þá útnefndur Íþróttamaður Reykjavíkur. Hann var einnig fyrirliði Víkingsliðsins 1987 þegar sjötti meistaratitillinn kom í hús hjá Víkingum á aðeins átta árum.

 Guðmundur Þórður varð sex sinnum Íslandsmeistari með Víkingi og fjórum sinnum bikarmeistari.

 Fyrir utan að vera á ferðinni með Víkingum á Íslandi þá lék Guðmundur 38 Evrópuleiki með Víkingi og skoraði 101 mark í þeim. Flest mörk skoraði hann í leik gegn St. Otmar í Sviss 1986 – alls 10 og var óstöðvandi í sigri Víkinga, 22:17.

Guðmundur Þórður Guðmundsson gefur þremur ungum aðdáendum eiginhandaráritum á B-keppninni í Frakklandi 1981. Jens Einarsson og Þorbergur Aðalsteinsson fylgjast með. Mynd/Sigmundur Ó. Steinarsson.

Með á tvennum Ólympíuleikum

 Guðmundur Þórður, sem lék sinn fyrsta landsleik 1980, undir stjórn Hilmars Björnssonar, gegn Belgíu í Laugardalshöllinni 20. desember 1980. Hann skoraði tvö mörk í leiknum, 33:10.

 Guðmundur Þórður, sem klæddist landsliðspeysunni 231 sinnum og skoraði 354 mörk á árunum 1980-1990, var lengi fastamaður í landsliðinu. Hann tók þátt í tvennum Ólympíuleikum – í Los Angeles 1984 og Seoul 1988 og í tveimur heimsmeistarakeppnum – í Sviss 1986 og Tékkóslóvakíu 1990, en eftir keppnina þar kvaddi hann landsliðið eins og Bogdan.

 Hann tók þátt í þremur B-keppnum – fyrst í Frakklandi 1981, þá í Hollandi 1983 og síðan í Frakklandi 1989, þar sem Íslendingar unnu til gullverðlauna í París með því að leggja Pólverja að velli í úrslitaleik, 29:26.

Guðmundur Þórður, baráttumaðurinn miklu, var og er ekki frægur fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Hér tekur hann þýsku stórskyttuna Erhard Wunderlich úr umferð á fyrstu árum sínum sem landsliðsmaður. Hann kunni tökin á þeim!

Leikmaður og þjálfari

 Guðmundur Þórður hóf þjálfaraferil sinn hjá Víkingi 1989 og var hann þjálfari og leikmaður með Víkingum 1989 til 1992, en þá víkkaði hann sjóndeildarhringinn og gerðist leikmaður og þjálfari Aftureldingar 1992-1995 og þaðan lá leið hans til Fram 1995-1999.

 Það hefur verið sagt um Guðmund sem þjálfara, að hann hafi verið eins og Bogdan, lærimeistari hans – að leika á fáum leikmönnum. Nýta mest þá sjö leikmenn sem hann treysti best til verksins hverju sinni. Það getur verið sterkur leikur þegar vel gengur, en erfitt þegar á móti blæs – og leikmenn eru undir miklu álagi. 

Guðmundur Þórður, baráttumaðurinn miklu, var og er ekki frægur fyrir að ráðast á garðinn þar sem hann er lægstur. Hér tekur hann þýsku stórskyttuna Erhard Wunderlich úr umferð á fyrstu árum sínum sem landsliðsmaður. Hann kunni tökin á þeim!

Í víking til Þýskalands

 Guðmundur Þórður hélt eins og sannur víkingur – í víking til Þýskalands í júlí 1999, eftir að hafa skrifað undir þriggja ára samning við Bayer Dormagen, þar sem hann var þjálfari liðsins ásamt Peter Pysall, fyrrverandi landsliðsmanni Þýskalands. Það vakti athygli að tveir þjálfarar hafi verið ráðnir, en tveir þjálfarar höfðu ekki áður verið saman með lið í 1. deild.

 Dormagen, sem Kristján Arason hafði þjálfað áður, var nýliði í 1. deild og með liðinu léku þrír íslenskir landsliðsmenn – Róbert Sighvatsson, Héðinn Gilsson og Daði Hafþórsson.

 Liðinu gekk ekki vel og var Pysall leystur frá störfum í mars 2000 og sá Guðmundur einn um lokasprettinn, en Dormagen var þá í harðri fallbaráttu. Liðið tryggði sér áframhaldandi sæti í 1. deild með sigri á Nettelsted á heimavelli í síðustu umferðinni, 25:20.

 Guðmundur Þórður sagði eftir leikinn að hann hafi upplifað sitt erfiðasta keppnistímabil ferilsins – sem leikmaður og þjálfari.

 Ákveðið var að Guðmundur yrði áfram með liðið, en 6. mars 2002 var hann leystur undan samningi, er hann átti eitt og hálft ár eftir af samningi sínum við félagið.

 „Það var sameiginleg ákvörðun mín og stjórnarinnar að þetta væri það skynsamlegasta í stöðunni. Þetta er búið að vera gríðarlega erfitt hjá okkur í vetur. Endalaus meiðsli hafa herjað á leikmannahópinn í allan vetur og þegar illa gengur er oft eina leiðin að skipta um þjálfara,“ sagði Guðmundur Þórður í samtali við Morgunblaðið. Aðstoðarmaður Guðmundar, Kai Wandschneider, tók við liðinu sem var þá í þriðja neðsta sæti deildarinnar.

Landsliðsþjálfari

 Guðmundur kom aftur heim og tók við landsliðinu af Þorbirni Jenssyni 10. apríl 2001. Liðið náði mjög góðum árangri á Evrópumótinu í Svíþjóð 2002, þar sem það hafnaði í fjórða sæti eftir að hafa tapað fyrir Danmörku í leik um bronsið, 22:29. 

 Landsliðið hafnaði í sjöunda sæti á HM í Portúgal 2003 og tryggði sér rétt til að leika á Ólympíuleikunum í Aþenu 2004 með því að leggja Júgóslavíu að velli í síðasta leiknum, 32:27.

 Guðmundur Þórður sagði starfi sínu lausu eftir að landsliðið náði sér ekki á strik á EM í Slóveníu og ÓL í Aþenu 2004.

Fram meistari eftir 34 ár

 Guðmundur Þórður hélt þá til Fram á nýjan leik, en Framarar höfðu orðið sigurvegarar í 2. deild 2005. Guðmundur náði að byggja upp sterka liðsheild hjá Fram, sem fagnaði Íslandsmeistaratitlinum 2006 eftir harða keppni við Hauka – urðu meistarar á betri markatölu. „Það er meiriháttar að sjá hvað Guðmundur þjálfari hefur unnið vel með strákunum á þeim stutta tíma sem hann hefur verið með Framliðið – ekki ár,“ sagði Karl G. Benediktsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari og þjálfari Framliðsins, sem varð síðast meistari 1972.

 Ingólfur Steinar Óskarsson, fyrrverandi fyrirliði Fram og landsliðsins sagði að Framarar væru heppnir að vera með þjálfara í hæsta gæðaflokki, sem Guðmundur væri. „Framliðið er mjög skipulagt og frábært í alla staði. Guðmundur hefur unnið þrekvirki með liðið á stuttum tíma og það var happafengur að fá hann til okkar.“

Guðmundur Þórður með íslenska landsliðinu að loknum Ólympíuleikunum í Bejing 2008. Mynd/EPA

Silfur í Peking, stórriddarakross og brons í Vín

 Guðmundur hafði þroskast sem þjálfari og var hann þjálfari hjá Fram eitt tímabil í viðbót, 2006-2007. Þegar Alfreð Gíslason tók við landsliðinu um sumarið 2006 fékk hann leyfi hjá Fram til að ráða Guðmund Þórð sem aðstoðarmann og störfuðu þeir saman fram yfir heimsmeistaramótið í Þýskalandi 2007. Guðmundur tók við starfi hans sem landsliðsþjálfari ári síðar eftir að Alfreð hafði látið að störfum eftir EM í Noregi 2008.

 Landsliðið náði frábærum árangri undir stjórn Guðmundar og fékk silfur á Ólympíuleikunum í Peking 2008, eftir að hafa tapað fyrir Frakklandi í úrslitaleik, 23:28. Þrír af lærisveinum Guðmundar voru valdir í sjö manna úrvalslið ÓL; Guðjón Valur Sigurðsson, Snorri Steinn Guðjónsson og Ólafur Stefánsson.

  Eftir árangur Íslands í Peking voru leikmenn sæmdir riddarakrossi Íslands, en Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, sæmdi Guðmund Þórð stórriddarakrossi fyrir framlag til afreksíþrótta.

 Í Evrópukeppninni í Austurríki 2010 hafnaði íslenska liðið í þriðja sæti eftir sigur á Póllandi 29:26.

 Landsliðið gerði einnig góða hluti á ÓL í London 2012, en hafði þá ekki heppnina með sér. Liðið fékk fullt hús stiga í riðlakeppninni, þar sem Svíar og Frakkar voru lagðir að velli. Ísland mætti síðan Ungverjum í 8-liða úrslitum og máttu þola tap í tvíframlengdum spennuleik, 33:34. Þar með missti Íslands af því að leika um verðlaunasæti á ÓL.

Guðmundur með mörg járn í eldinum

 Guðmundur Þórður ákvað að segja starfi sínu lausu sem landsliðsþjálfari eftir ÓL í London, en hann hafði verið og var með mörg járn í eldinum.

 Auk þess að vera landsliðsþjálfari þjálfaði hann danska liðið GOG Svendborg 2009-2010. Hann var í maí 2010 ráðinn yfirmaður íþróttamála hjá danska ofurliðinu AG København, sem skartgripasalinn Jesper Nielsen var nýbúin að stofna. Í júlí var Guðmundur Þórður einnig orðinn yfirmaður íþróttamála hjá þýska liðinu Rhein-Neckar Löwen, sem Jesper Nielsen átti einnig og var Guðmundur þá orðinn yfirmaður íþróttamála hjá tveimur öflugum handknattleiksliðum í tveimur löndum.

Guðmundur Þórður á hliðarlínunni í leik með Rhein-Neckar Löwen árið 2013. Mynd/EPA

Þjálfari Rhein-Necker Löwen

 Þær fréttir bárust síðan frá Þýskalandi í september 2010 að Guðmundur Þórður væri orðinn þjálfari Rhein-Neckar Löwen og hafi látið af starfi sem íþróttastjóri félagsins og einnig AG København. Það vakti athygli að Guðmundur skrifaði undir fimm ára óuppsegjanlegan samning – og tók hann við starfi Svíans Ola Lindgren. Með Löwen léku þá þrír íslenskir landsliðsmenn – Ólafur Stefánsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Róbert Gunnarsson.

 Guðmundur Þórður var ánægður með þjálfarastarfið og sagðist lengi hafa dreymt um að þjálfa eitt af bestu liðum heims. Undir stjórn Guðmundar tók Löwen þátt í meistarabaráttunni í Þýskalandi ár eftir ár – og veitti Alfreð Gíslasyni og lærisveinum hans hjá Kiel harða keppni. 

 Löwen varð sigurvegari í EHF-bikarkeppni Evrópu 2013 undir stjórn Guðmundar, en þá léku Alexander Peterson og Stefán Rafn Sigurmannsson með Löwen, sem vann Nantes í úrslitaleik í Nantes 26:24, eftir að hafa unnið Göppingen í undanúrslitum 28:22.

Guðmundur Þórður var krýndur „Trainer des Jahres“ – þjálfari ársins – 2014 af þýska handknattleikssambandinu.

Frá Heidelberg til Brøndby

 Þegar Ulrik Wilbek, landsliðsþjálfari Danmerkur, sagði starfi sínu lausu eftir EM í Danmörku 2014, leituðu Danir til Guðmundar, sem þáði boð þeirra – fluttist frá Heidelberg til Bröndby í júlí og tók við danska landsliðinu. Það var Wilbek, sem var orðinn yfirmaður íþróttamála hjá danska handknattleikssambandinu, sem mælti með Guðmundi sem eftirmann sinn.

Guðmundur Þórður með danska landsliðinu á verðlaunapalli á ÓL 2016. Mynd/EPA

ÓL-gull og ótrúleg uppákoma 

 Það má með sanni segja að toppurinn á þjálfaraferli Guðmundar, fram til þessa, hafi verið á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu í sumarið 2016, þegar Danir tryggðu sér gullverðlaunin með því að leggja Frakka, sem voru ÓL-meistarar 2008 og 2012, að velli í æsispennandi úrslitaleik, 28:26. Guðmundur stóð þá uppi sem sigurvegari með leikskipulagi sem hann lagði upp fyrir leikinn.

 Danir fögnuðu gríðarlega þessum fyrstu gullverðlaunum sínum í handknattleik karla á ÓL, en þegar fagnaðarlætin stóðu sem hæst – kom fram að það var ekki allt sem sýndist.

 Fréttir um að Wilbek hafi viljað láta reka Guðmund á miðjum leikunum og fundarhöld hans með sex leikmönnum kom eins og köld vatnsgusa framan í menn. Já, og Wilbek vildi einnig láta reka Guðmund daginn eftir að gullið var í höfn.

 Það var ekki nema eðlileg að menn hafi spurt; Hvað er að gerast? Valdabarátta Wilbek fór úr böndunum – hún var óvægin og miskunnarlaus. Sem betur fer vildu leikmennirnir sem Wilbek hóaði saman, ekki fara á bak við þjálfara sinn – þeir stóðu með honum í baráttunni. Wilbek átti erfitt með að þola að Guðmundur var að ná betri árangri með landsliðið en hann. Ótrúlegt, en satt!

Guðmundur Þórður fagnar Ólympíugulli með lærisveinum sínum í danska landsliðinu í Ríó 2016.

  Það urðu skiljanlega mikil skrif um málið í dönskum fjölmiðlum. Wilbek sagði í kjölfarið starfi sínu lausu, en Guðmundur vildi ekki tjá sig um málið. Hann tilkynnti síðar að hann myndi hætta sem þjálfari danska landsliðsins er samningur hans rynni út 1. júní 2017. Hann stjórnaði danska landsliðinu á HM í Frakklandi í janúar og eftir að hafa unnið alla fimm leiki sína í riðlakeppninni töpuðu Danir fyrir Ungverjum í 16-liða úrslitum; Já, Ungverjum, 25:27, og voru sendir heim.

 Þetta var síðasti leikur Guðmundar með danska liðið, en  hann fagnaði 13 af síðustu 14 leikjum sínum með liðið.

 Guðmundur Þórður sagði starfi sínu lausu 6. mars, eftir að hafa lagt grunninn fyrir Nikolaj Jacobsen, en undir hans stjórn hafa Danir orðið heimsmeistarar þrisvar í röð, 2019, 2921 og 2023!

 Í kveðjuyfirlýsingu danska handknattleikssambandsins, mátti lesa:  „Guðmundur mun alltaf eiga sérstakan sess í danskri handboltasögu. Hans verður alltaf minnst fyrir að hafa náð besta árangri í sögu danska handboltans. Við þökkum honum fyrir hans framlag og óskum honum alls hins besta í framtíðinni.“

Vildu æviráða Guðmund

Guðmundur Þórður varð landsliðsþjálfari Bahrain 2017-2018. Undir hans stjórn fékk landslið Bahrain silfurverðlaun á Asíuleikunum í Suður-Kóreu, er liðið tapaði úrslitaleik gegn Katar í janúar 2018, 31:33. Mikil ánægja var með störf Guðmundar og vildu forráðamenn landsliðsins æviráða Guðmund.

 Svo varð ekki, því að HSÍ kallaði á Guðmund Þórð heim; hans hlutverk var að taka við landsliðinu eftir slæmt gengi á EM í Króatíu

Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari, og Arnór Þór Gunnarsson, fyrirliði á HM í Egyptalandi í janúar 2021. Mynd/EPA

Hlutverk Guðmundar var uppbygging

Þegar Guðmundur Þórður tók við landsliðinu af Geir Sveinssyni eftir EM í Króatíu, hóf hann uppbyggingu á landsliði framtíðarinnar; framundan var HM í Danmörku/Þýskalandi og EM í Svíþjóð, Noregi og Austurríki 2020.

Eftir það fór Covid19 að herja á heimsbyggðina og engir áhorfendur verða leyfðir á HM í Egyptalandi 2021. Landsliðið náði sér ekki á strik; hafnaði í 20. sæti. Covid herjaði á íslenska liðið á EM 2022 í Ungverjalandi og Slóvakíu. Þrátt fyrir mikil forföll í íslenska landsliðshópnum og stundum var erfitt að manna liðið hafnaði Ísland í sjötta sæti. Ómar Ingi Magnússon varð markakóngur HM með 59 mörk og Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður, var valinn í sjö manna úrvalslið EM.

Ánægður á tali við Vigni Stefánsson eftir sigur á Frökkum á EM í Ungverjalandi snemma í janúar í fyrra. Mynd/Hafliði Breiðfjörð

Þegar næsta stórverkefni var framundan; HM í Danmörku og Póllandi 2022, áttu báðir þessir snjöllu leikmenn við meiðsli að stríða og einnig fyrirliðinn Aron Pálmarsson, en álagsmeiðsli herjuðu á hann. Þá meiddist Haukur Þrastarson fyrir HM og munaði um minna.

Stefnan var sett á að komast í 8-liða úrslit, en því miður tókst það ekki. Óvænt tap gegn Ungverjum kom í veg fyrir það, sem er óþarfi að rifja hér upp. Vonbrigðin urðu mikil hjá Strákunum okkar, sem þurftu að treysta á aðra, til að komast í 8-liða úrslit, sem stefnt var að í upphafi. Ungverjar gáfu ekkert eftir og það var hlutverk þeirra að fara með Svíum í 8-liða úrslit, en „Strákarnir okkar“ fóru heim; urðu að sætta sig við tólfta sæti.

Guðmundur Þórður er mikill keppnismaður og undirbýr sig vel fyrir hverja orrustu, ákveðinn í að láta sitt ekki eftir liggja þegar á hólminn er komið. Pistlahöfundur sá að Guðmundur Þórður skynjaði miklar væntingar fyrir HM, sem settu þrýsting og spennu á leikmennina hans. Hann þekkti vel hvernig miklar væntingar geta leikið menn. Hann var ekki ánægður með hvernig aðvörunarbjöllurnar hringdu. Vitnað var í Danann Mathias Gidsel, Alfreð Gíslason, landsliðsþjálfara Þýskalands, og fleiri í fjölmiðlum, sem töluðu um að Ísland gætu farið á verðlaunapall.

Guðmundur Þórður var óhress með þær væntingar sem byrjað var að byggja upp í kringum lið sitt, en nokkrir leikmenn féllu ofan í þá gryfju að tala um heimsmeistaratitil, sem hafði ekki góðri lukku að stýra.

Fagnað á EM í Svíþjóð á EM 2020. Mynd/EPA

Ungt og efnilegt lið

 Íslendingar eiga nú gott lið, sem er skipað ungum og stórefnilegum leikmönnum, sem eiga framtíðina fyrir sér. Það var ekki rétt að fara fram á of mikið af strákunum. Með meiri reynslu mun þeirra tími koma, en þeir mega ekki fara fram úr sér.

 Það eru ekki nema tveir leikmenn sem leika með besta liði Þýskalands og einu af bestu liðum Evrópu, Magdeburg. Það er ekki hægt að ætlast til af þeim, Ómari Inga og Gísla Þorgeiri, að þeir dragi vagninn leik eftir leik.

 Einn sérfræðingurinn sagði í byrjun desember, að ef allt gangi upp á HM þá gæti Ísland orðið heimsmeistari.

 Guðmundur Þórður átti í fullu fangi með að slá á fingurnar á mönnum.

 Sérfræðingar og og fjölmiðlar voru framarlega í að Íslendingar og leikmenn fóru fram úr sér. Þúsundir Íslendinga fóru til Svíþjóðar til að dansa sigurdansinn, fyrst á Skáni og síðan í Gautaborg. Það var stórkostlegt að sjá þann stuðning. 

Framundan eru leikir um farseðilinn á Evrópukeppni landsliða í Þýskalandi 2024. Það vildu margir gera breytingar á stjórnun landsliðsins; að segja Guðmundi Þórði Guðmundssyni, landsliðsþjálfara, upp störfum. Pistlahöfundur var ekki sammála. Guðmundur er einn öflugasti þjálfari okkar; mikill baráttumaður, sem þolir ekki að tapa. Guðmundur Þórður var samningsbundinn HSÍ til 2024. Það hefði átt að láta þann samning standa. 

Guðmundur Þórður Guðmundsson ræðir við liðsmen MT Melsungen. Mynd/MT Melsungen

Hliðarstörf í Þýskalandi og Danmörku 

Það var ekki fullt starf að vera landsliðsþjálfari Íslands og þjálfarinn var meira á flakki um Evrópu til að sjá landsliðsmenn sína leika, en flestir landsliðsmenn Íslands leika í Þýskalandi, Frakklandi, Ungverjalandi, Póllandi, Danmörku, Svíþjóð og Noregi.  Guðmundur var þjálfari hjá Melsungen frá 1. febrúar 2020 til september 2021.

Hann tók við þjálfun danska liðsins Fredericia sumarið 2022 og gerði þriggja ára samning við liðið.

Hver tekur við?

 Nú þegar eru handknattleiksunnendur byrjaðir að velta vöngum og ræða um; hver er líklegastur til að taka við landsliðinu af Guðmundi Þórði. Mörg nöfn skjótast fram í hugann, eins og Þórir Hergeirsson, sem hefur náð stórkostlegum árangri með norska kvennalandsliðið, Alfreð Gíslason, þjálfari Þýskalands, Dagur Sigurðsson, þjálfari Japans sem var landsliðsþjálfari Austurríkis 2008-2010 og Þýskalands 2014-2017, Aron Kristjánsson, þjálfari landsliðs Bahrain, Patrekur Jóhannesson, þjálfari Stjörnunnar og fyrrverandi þjálfari Austurríkis, Erlingur Birgir Richardsson  þjálfari ÍBV og fyrrverandi þjálfari Hollands og Kristján Andrésson, fyrrverandi þjálfari Eskilstuna GUIF, Rhein-Neckar Löwen og sænska landsliðsins.

 Alfreð og Aron hafa þjálfað íslenska landsliðið.

 Hér eru allt um að ræða reynda þjálfara, en það er ekkert víst að Þórir, Alfreð og Dagur séu tilbúnir að gefa störf sín eftir til að taka við íslenska landsliðinu.

 Það á eftir að koma í ljós, ef leitað verður til þeirra.

 Einnig er nefndur nýliði í þjálfun, Snorri Steinn Guðjónsson, sem hefur náð frábærum árangri með Valsliðið, sem hann hefur byggt upp með miklum sóma. Með meiri reynslu kemur eflaust að honum; síðar! 

Ég bið að heilsa,

sjáumst síðar!

Sigmundur Ó. Steinarsson

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -