Guðmundur Þórður Guðmundsson og lærisveinar hans í MT Melsungen mæta Lemgo í úrslitum þýsku bikarkeppninnar í handknattleik á morgun. MT Melsungen vann Hannover-Burgdorf í síðari leik undanúrslitanna í kvöld, 27:24, en leikið er til úrslita í bikarkeppninni í Hamborg eins og mörg undanfarin ár. Melsungen hefur aldrei áður leikið til úrslita í bikarkeppninni.
Fyrr í dag vann Lemgo, með Bjarka Má Elísson innanborðs óvæntan sigur á Kiel, 29:28.
Melsungen var með tök á leiknum í dag frá upphafi til enda þótt forskotið hafi aldrei verið mjög mikið. Fjórum mörkum munaði þó á liðunum í hálfleik, 14:10. Undir lokin tókst Hannover-Burgdorfliðinu að minnka muninn í eitt mark en lánaðist ekki að jafna.
Arnar Freyr Arnarsson skoraði ekki mark fyrir Melsungen.
Ivan Martinovic skoraði átta mörk fyrir Hannover-Burgdorf og var þeirra markahæstur. Julius Kühn var atkvæðamestur leikmanna Melsungen með sjö mörk.