Gísli Þorgeir Kristjánsson, leikmaður SC Magdeburg, tekur ekki þátt í æfingum íslenska landsliðsins í þessari viku eins og til stóð. Hann hefur þjakaður af verkjum í öðrum hælnum um skeið en engu að síður þrælað sér í gegnum æfingar og leiki með toppliði þýsku 1. deildarinnar.
Við skoðun hjá lækni hér á landi gær var niðurstaðan sú að ekki yrði við svo búið lengur. Ekki væri komist hjá að sprauta í hælinn og taka nokkurra daga hlé frá æfingum meðan bata væri leitað.
Gísli Þorgeir sagði við handbolta.is í morgun að það væru vonbrigði að geta ekki tekið þátt í æfingum lansliðsins hér á landi þessa daga. Slíkt hafi verið markmiðið enda er samkeppni um sæti í landsliðinu hörð fyrir Evrópumeistaramótið í janúar. Mat læknis hafi hinsvegar verið að lengra yrði ekki gengið á hælnum við óbreytt ástand.
„Ég fann mikið til en lét mig hafa það að leika engu að síður með Magdeburg. En það var alls ekki þægilegt. Ég spilaði mig í gegnum sársaukann,” sagði Gísli Þorgeir sem engu að síður gladdist yfir að koma heim í nokkra daga, hitta félaga sína í landsliðinu, auk ættingja og vina.
Framundan er þétt dagskrá hjá Magdeburg fram að áramótum með tveimur og jafnvel þremur leikjum í viku og þar af leiðandi nauðsynlegt að vera í toppstandi.