Óvíst er hvað tekur við hjá handknattleiksmanninum Hafsteini Óla Ramos Rocha eftir að hann sagði upp samningi sínum við Gróttu í vor eftir að liðið féll úr Olísdeildinni. Hafsteinn Óli segir við Handkastið að vera kunni að hann taki sér frí fram yfir áramót. Þrálát axlarmeiðsli hafa slegið hann út af laginu.
Hafsteinn segist vilja ná sér góðum áður en hann fer á fullt út á handknattleiksvöllinn á nýjan leik, sem skiljanlegt er.
Annað hvort sé að bíða og vona að öxlin jafni sig eða þá að fara í aðgerð.
Af þessu sökum kann svo að fara að Hafsteinn Óli leiki ekki handknattleik fyrr en eftir næstu áramót, alltént er ljóst að hann leikur ekki meðan hann er samningslaus.
Landsliðsmaður
Hafsteinn Óli vann sér sæti í landsliði Grænhöfðaeyja í upphafi ársins og lék með landsliðinu á HM, m.a. gegn íslenska landsliðinu í riðlakeppni mótsins. Afríkukeppni landsliða fer fram í janúar. Hún er undankeppni fyrir heimsmeistaramótið 2027.