Keppni hófst á nýjan leik í Olísdeild kvenna síðasta laugardag. Handboltahöllin, vikulegur þáttur um handbolta, hóf þar með göngu sína aftur eftir jólaleyfi. Á mánudagskvöld var farið yfir viðureignir 12. umferðar Olísdeildar kvenna og magnaða frammistöðu Hafdísar Renötudóttur í stórsigri Vals á Fram.
Hafdís varði 13 af 28 skotum og var með 46,4% hlutfallsmarkvörslu. Því spurði þáttastjórnandinn Hörður Magnússon: „Getið þið sagt mér af hverju hún er ekki í atvinnumennsku? Er hún með einhvern versta umboðsmann allra tíma eða?“
Nær því ekki á Íslandi
„Ég þarf kannski að taka upp símann og spyrja hana hreinlega því að hún spilar ítrekað leiki þar sem hún er með yfir 40% markvörslu. Hún er búin að eiga einn leik þar sem hún fer undir 30% og það er tapleikurinn á móti ÍR.
Ég held að hún sé með ennþá hærra þak, en ég held að hún nái því ekki hérna á Íslandi. Mig langar að sjá hana fara í aðeins stærra umhverfi og stærri deild,“ sagði Rakel Dögg Bragadóttir, annar sérfræðinga Handboltahallarinnar.
Nánar er fjallað um Hafdísi í myndskeiði hér fyrir ofan.
Valur fær KA/Þór í heimsókn í 13. umferð Olísdeildarinnar í N1 höllina á Hlíðarenda klukkan 15:30 í dag.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.




