Handboltahöllin, vikulegur þáttur á mánudagskvöldum á Handboltapassanum, fór yfir 13. umferð Olísdeildar kvenna. Í nýjasta þættinum var farið ítarlega yfir stórsigur Hauka á Selfossi í Kuehne+Nagel höllinni í Hafnarfirði í síðustu viku.
„Þetta var „game over“ fyrir hálfleik, þessi leikur,“ sagði Ásbjörn Friðriksson annar sérfræðingur Handboltahallarinnar og bætti við að honum þætti Haukar vera með þriðja besta lið deildarinnar. Haukar eru í fimmta sæti.
Blés í Haukalúðra
Staðan í hálfleik var 19:10 og lauk leiknum með sex marka sigri Hauka, 34:28. Sérfræðingurinn Einar Ingi Hrafnsson tók í sama streng og Ásbjörn, sem finnst að Haukar ættu að vera með fleiri stig á tímabilinu.
„Ég hef náttúrlega orðið fyrir miklum vonbrigðum með Haukana í vetur. Ég var einhvern veginn að blása í einhverja Haukalúðra fyrir þær fyrir tímabilið en þær hafa bara ekki staðið undir því. En gæðin eru til staðar,“ sagði Einar Ingi.
Ítarlega umræðu um Hauka má sjá í myndskeiðinu hér fyrir ofan.
Haukar heimsækja Stjörnuna í Heklu höllina í Garðabæ í fyrsta leik 14. umferðar Olísdeildarinnar klukkan 19:30 í kvöld.
Staðan og næstu leikir í Olísdeildum.



