Handknattleiksmaðurinn Alexander Petersson gaf út yfirlýsingu fyrir nokkrum vikum þess efnis að hann ætlaði að hætta að leika handknattleik í sumar eftir frábæran feril, jafnt með félagsliðum og íslenska landsliðinu þar sem hann var ein af kjölfestum um árabil, m.a. í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í Beijing sumarið 2008. Síðustu 19 ár hefur Alexander leikið í Þýskalandi. Hann flutti til Íslands frá Ríga í Lettlandi sumarið 1998 til að leika með Gróttu KR og ílengdist hér á landi eftir að hafa verið kominn út á ranga braut í lífinu.
Alexander var á dögunum í ýtarlegu viðtali við Mannheimer Morgenpost sem handbolti.is fer yfir á hundavaði hér fyrir neðan í afar lauslegri þýðingu.
Í viðtalinu segir Alexander frá því að hann hafi fengið nokkrar fyrirspurnir frá félögum um að leika áfram á næsta tímabili. Hinsvegar hafi hann verið ákveðinn í að setja punkt aftan við ferilinn í sumar eftir 19 ár í Þýskalandi. Alexander verður 42 ára gamall eftir tæpan mánuð.
Boðið var heiður
Meðal þeirra liða sem höfðu áhuga er Melsungen sem Alexander hefur leikið með síðasta árið. Vegna meiðsla þýska landsliðsmannsins Timo Kastening hafi verið áhugi af hálfu Melsungen að lengja í samningnum. „Mér þótt heiður að boðinu en afþakkaði þar sem mér fannst vera kominn tími til að hætta,“ segir Alexander.
Pólland og Danmörk
Alexander segir einnig frá því að árið 2010 hafi hann fengið tilboð frá pólska meistaraliðinu Vive Kielce á sama tíma og hann velti vöngum yfir tilboði frá Füchse Berlin. Þáverandi samningur við Flensburg var að renna út. Eftir íhugun hafi það orðið ofan á að vera áfram í Þýskalandi, ekki síst af fjölskylduástæðum.
Fimm árum síðar hafi danska meistaraliðið KIF Kolding sýnt sér áhuga en hann ákveðið halda sig við Rhein-Neckar Löwen í Þýskalandi. Alexander segist ekki sjá eftir að halda áfram hjá Löwen en hann hafi m.a. orðið þýskur meistari á árunum á eftir.
Var kominn út af sporinu
Alexander kemur inn á það í fyrrgreindu viðtali sem áður hefur komið fram í samtölum við hann hér á landi að sem unglingur í Ríga í Lettlandi hafi hann ekki verið í góðum félagsskap þegar honum bauðst að flytja til Íslands 18 ára gamall, 1998.
„Handboltinn bjargaði mér. Ég veit ekki hvað hefði orðið um mig ef hann hefði ekki komið til,“ segir Alexander í viðtalinu. „Ég var kominn út af sporinu og blandast í allskyns vitleysu í Ríga,“ segir Alexander sem er fæddur í Lettlandi og lítur á það sem sitt föðurland þrátt fyrir að hafa öðlast íslenskan ríkisborgarrétt síðar á ævinni og kvænst íslenskri konu, Eivoru Pálu Blöndal.
Alexander lék með Gróttu KR frá 1998 til 2033, Düsseldorf frá 2003 til 2005, Großwallstadt 2005 – 2007, Flensburg 2007 – 2010 og aftur frá febrúar 2021 fram í júní sama ár, Füchse Berlin 2010 til 2012 og Rhein-Neckar Löwen frá 2012 fram í janúar 2021. Alls lék Alexander með íslenska landsliðinu í 16 ár, frá 2005 til 2021. Landsleikir eru 186 og mörkin 725. Alexander var kjörinn Íþróttamaður ársins 2010 af Samtökum íþróttafréttmanna og sæmdur Fálkaorðunni 2008. Alexander vann EHF-bikarinn með Rhein-Neckar Löwen 2013, varð þýskur meistari með liði Rhein-Neckar Löwen 2016 og 2017, bikarmeistari 2018 og meistari meistaranna (supercupgewinner) 2016, 2017 og 2018. Með íslenska landsliðinu vann Alexander silfurverðlaun á Ólympíuleiknum 2008 og bronsverðlaun á EM 2010. Til viðbótar var Alexander valinn í úrvalslið HM 2011. Á sama móti var hann markahæsti leikmaður íslenska landsliðsins sem hafnaði í sjötta sæti. Alexander hefur tíu sinnum verið tilnefndur í úrvalslið þýsku 1. deildarinnar.
Erfið fyrstu ár á Íslandi
Fyrstu árin á Íslandi hafi verið erfið í nýju umhverfi innan um fólk sem hann þekkti ekki. Honum hafi hinsvegar verið vel tekið. Veðráttan á Íslandi hafi ekki auðveldað veruna. Hann hafi unnið mikið og æft vel með Gróttu/KR. „Ég lærði það af Íslendingum að gefast ekki upp heldur halda áfram og elta drauminn um að komast til Þýskalands og verða atvinnumaður í handknattleik.“ Draumurinn rættist árið 2003 með samningi við Düsseldorf sem lék í 2. deild.
Lagði sig allan fram í landsliðinu
Eftir nokkurra ára veru á Íslandi hafi hann fengið ríkisborgararétt sem opnaði honum möguleika á leika með íslenska landsliðinu árum saman og notið þess. Hann hafi viljað þakka Íslendingum fyrir með því að leggja sig allan fram þegar kom að því að leika fyrir landsliðið.
Hugsar til eiginkonu og barna
„Lettland er föðurland mitt og fæðingstaður og því gleymi ég ekki þótt sem handboltamaður sé ég Íslendingur. Þegar ég heyri íslenska þjóðsönginn þá hugsa ég til konu minnar og barna sem alltaf hafa staðið þétt við bakið á mér og gert mér kleift að ná þeim árangri sem ég hef náð,“ segir Alexander í lauslegri þýðingu úr þýsku.
Tveir fremstir meðal jafningja
Spurður eftir eftirminnilegum samherjum á ferlinum segir Alexander að hann hafi á löngum ferli leikið með mörgum frábærum leikmönnum sem hann hafi lært mikið af. Tveir séu þó fremstir meðal jafningja, Guðjón Valur Sigurðsson og Norðmaðurinn Bjarte Myrhol.