- Auglýsing -
Breytingar eru að eiga sér stað á handboltaþættinum Handboltinn okkar sem fór fyrst í loftið síðla sumars og hefur síðan notið vaxandi hylli handboltaáhugafólks. Í tilkynningu frá forsvarsmönnum þáttarins segir að verið sé að ljúka við uppsetningu á nýju hljóðveri og er stefnt á að þeim framvæmdum ljúki fljótlega. Stefnt er á að næsti þáttur fari í loftið á fimmtudaginn, 4. febrúar. Á sama tíma verða aðrar breytingar gerðar á þættinum.
Handboltinn okkar hættir um leið á Sport FM og verður alfarið hlaðvarpsþáttur sem hægt verður að nálgast á Spotify og Itunes. Auk þess hafa orðið mannabreytingar í þættinum. Andri Már Eggertsson mun stíga frá borði vegna anna í öðrum störfum. Í hans stað kemur Gestur Guðrúnarson að umsjón þáttarins ásamt Jóhannesi Lange sem hefur verið einn umsjónarmanna Handboltans okkar frá upphafi. Gestur er öllum hnútum kunnugur í handboltanum en hann var formaður handknattleiksdeildar Akureyrar handboltfélags um hríð og hefur auk þess árum saman fylgst grannt með handboltanum.
- Auglýsing -