Hlaðvarpsþátturinn Handboltinn okkar var á ferðinni í kvöld þar sem að umsjónarmenn þáttarins fjölluðu um seinni leiki Hauka og Aftureldingar annars vegar og FH og ÍBV hins vegar í 8-liða úrslitum í Olísdeild karla.
Leikur Hauka og Aftureldingar var engin flugeldasýning og spilamennska Mosfellingar var mikil vonbrigði. Félagarnir í hlaðvarpsþættinum vonuðust eftir að þeir myndu veita Haukum meiri keppni.
Leikur FH og ÍBV var hins vegar háspennu leikur þar sem spennustigið var hátt eðli máli samkvæmt. FH-ingar voru með frumkvæðið í leiknum og var útlit fyrir að þeir myndu vinna þetta einvígi. Þegar að 2 mínútur voru eftir gerði Arnar Freyr Ársælsson leikmaður FH sig sekan um dómgreindarleysi þegar hann lét reka sig útaf fyrir kjaftbrúk. Vestmannaeyingar nýttu sér liðsmuninn og komust inní leikinn og fór svo að lokum að þeir skoruðu jöfnunarmarkið þegar nokkrar sekúndur voru eftir og tryggði ÍBV þannig áfram í undanúrslitin.