Hannes Jón Jónsson stýrði Alpla Hard til sigurs í austurrísku bikarkeppninni í handknattleik karla í dag. Eftir nauman sigur á West Wien, 24:23, í undanúrslitum í gær lagði Alpla Hard liðsmenn Füchse nokkuð örugglega í úrslitaleiknum, 33:27. Alpla Hard var marki yfir í hálfleik, 16:15.
Hannes Jón tók við þjálfun Alpla Hard sumarið 2021 og er þetta fyrsti stóri titillinn sem liðið vinnur undir hans stjórn.
Alpla Hard hafnaði í fjórða sæti í deildarkeppninni sem lauk á dögunum. Framundan er úrslitakeppnin um leið og landsliðið hefur lokið við að taka þátt í undankeppni EM. Hard mætir Ferlach í átta liða úrslitum. Fyrsta viðureignina verður laugardaginn 6. maí.
HYPO vann bikarinn í kvennaflokki. Lagði 7DROPS WAT Atzgersdorf, 26:20, í úrslitaleik fyrr í dag.