Austurríska handknattleiksfélagið Alpla HC Hard hefur ákveðið að framlengja ekki samning þjálfarans Hannesar Jóns Jónssonar og lætur hann því af störfum að loknu yfirstandandi tímabili í sumar.
Hannes Jón hefur þjálfað Alpla HC Hard frá sumrinu 2021 með góðum árangri. Í tilkynningu frá félaginu í gærkvöldi segir að ákveðið hafi verið að fara í breytingar að vandlega íhuguðu máli. Sú ákvörðun hafi ekki verið léttvæg.
Hannesi Jóni er þakkað kærlega fyrir góð störf, þar sem hann gerði liðið til að mynda að austurrískum meisturum vorið 2023.
„Ég er mjög þakklátur og stoltur af síðustu fimm árum hjá Alpla HC Hard. Ég vann með mörgum stórkostlegum leikmönnum og karakterum, bæði atvinnumönnum og ungmennum. Það var ótrúlega ánægjulegt og ég gat þróast hvern einasta dag, bæði í atvinnu og persónulega.
Við fjölskyldan höfum fundið nýtt heimili í Vorarlberg og það mun aldrei breytast. Ég er mjög þakklátur fyrir þetta,“ sagði Hannes Jón meðal annars í tilkynningu á heimasíðu Alpla HC Hard.



