Haukar standa betur að vígi eftir tveggja marka sigur á úkraínska liðinu HC Galychanka Lviv, 26:24, í fyrri viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Evrópubikarkeppni kvenna í handknattleik á Ásvöllum í kvöld. Liðin mætast á sama stað á morgun klukkan 17 og mun samanlagður sigurvegari leikjanna tveggja komast áfram í átta liða úrslit keppninnar.
Haukar voru með yfirhöndina í hálfleik, 12:9. Fljótlega í síðari hálfleik jafnaði HC Galychanka Lviv metin, 13:13. Haukar tóku þá aftur við sér og komust yfir, 18:14. Eftir það tók langur markalaus kafli við hjá Haukum sem úkraínska liðið nýtti sér til þess að jafna og komst yfir með fimm mörkum í röð. Síðustu mínúturnar voru jafnar og æsilega spennandi. Vart mátti á milli sjá.
Inga Dís Jóhannsdóttir innsiglaði tveggja marka sigur Hauka þegar skammt var til leiksloka með eina marki sínu í viðureigninni. Leikmenn HC Galychanka Lviv tóku leikhlé og freistuðu þess að minnka muninn. Allt kom fyrir ekki og liðið varð að sætta sig við tveggja marka sigur Hauka.
Mörk Hauka: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 7/4, Sonja Lind Sigsteinsdóttir 6, Elín Klara Þorkelsdóttir 5/1, Rakel Oddný Guðmundsdóttir 3, Sara Odden 2, Berglind Benediktsdóttir 1, Alexandra Líf Arnarsdóttir 1, Inga Dís Jóhannsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 6, Elísa Helga Sigurðardóttir 3, Margrét Einarsdóttir 1/1.
Tölfræði leiksins er fengin hjá mbl.is.