Úrslitarimma ÍBV og Hauka um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla hefst í íþróttamiðstöðinni í Vestmannaeyjum í dag. Þetta er í fjórtánda sinn frá árinu 2000 sem Haukar eiga lið í úrslitum sem er ótrúlegur árangur og ekki dregur það úr að frá aldamótum hefur úrslitakeppnin fjórum sinnum ekki farið fram, 2006, 2007, 2008 og 2020. Haukar hafa semsagt leikið til úrslita í 14 skipti af 20 að meðtalinni rimmunni sem hefst í dag.
ÍBV leikur að þessu sinni til úrslita í fimmta sinn.
Valur hefur næst oftast leikið til úrslita frá aldarmótum, í sjö skipti.
Hér fyrir neðan er farið á hundavaði yfir úrslitarimmurnar um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla.
2000:
Haukar – Fram 3:1.
Haukar töpuðu fyrsta leiknum með 10 marka mun, 30:20, en unnu þrjá þá næstu. Síðasta viðureignin var jafnframt kveðjuleikur Hauka í íþróttahúsinu við Strandgötu, 24:23. Haukar fögnuðu skiljanlega dátt sínum fyrsta Íslandsmeistaratitli í 58 ár sem var reykurinn að réttunum sem boðið var upp á næstu árin sem sem voru afar sigursæl í karlaflokki.
2001:
Haukar – KA, 3:2.
Haukar lentu undir, 1:2, eftir tap á nyrðra í þriðja leik, 27:18. Næstu tvo leiki unnu Haukar, þar á meðal oddaleik um Íslandsmeistaratitilinn í KA-heimilinu laugardaginn 5. maí, 30:27.
2002:
KA – Valur, 3:2.
KA tapaði tveimur fyrstu leikjunum en sneri þar með vörn í sókn og vann þrjá leiki í röð, þar á meðal oddaleik í Valsheimilinu 10. maí, 24:21.
2003:
Haukar – ÍR, 3:1.
ÍR lék í fyrsta sinn til úrslita um Íslandsmeistaratitilinn. Liðið vann leik tvö, 24:23, en fékk ekkert við Haukamenn ráðið í þremur leikjum.
2004:
Haukar – Valur, 3:0.
Haukar unnu KA í undanúrslitum og Valur lagði ÍR. Haukar voru hins vegar í miklum ham þegar að úrslitleikjunum lauk og vann einvígið, 3:0. Leikirnir voru 9., 11., og 13. maí.
2005:
Haukar – ÍBV, 3:0.
Þótt andstæðingurinn í úrslitum væri annar en áður þá voru yfirburðir Hauka miklir. ÍBV tapaði fyrsta leiknum með eins marks mun en átti erfitt uppdráttar í næstu tveimur.
2006, 2007 og 2008 var ekki úrslitakeppni. Deildarkeppnin var látin nægja.
2009:
Haukar – Valur, 3:1.
Haukar unnu meistarana frá árinu áður á sannfærandi hátt í fjórum viðureignum í úrslitum. Fjórða og síðasta leikinn unnu Haukar eð sjö marka mun, 33:26.
2010:
Haukar – Valur, 3:2.
Annað árið í röð mættust Haukar og Valur í úrslitum um Íslandsmeistaratitilinn. Að þessu sinni reyndust Valsmenn vera seigari undir tönn en árið áður og kom þar af leiðandi til oddaleiks á Ásvöllum sem Haukar unnu, 25:20.
2011:
FH – Akureyri, 3:1.
Lið Akureyrar handboltafélags var deildarmeistari. FH-inga unnu fyrsta leikinn nyrðra og lögðu þar með grunn að fyrsta Íslandsmeistaratitli sínu í handknattleik karla í nærri 20 ár. Titlinum var fagnað í Kaplakrika 4. maí með fjögurra marka sigri, 28:24.
2012:
HK – FH, 3:0.
HK hafði fært sig upp á skaftið árið áður með því að komast í undanúrslit. Vorið 2012 var hinsvegar aðeins eitt lið á sviðinu. HK sópaði Haukum út í undanúrslitum og var einnig með sópinn á lofti í úrslitum. Leikmenn HK tóku við Íslandsbikarnum í fyrsta skipti í Kaplakrika með tveggja marka sigri á FH, 28:26, í þriðju viðureign liðanna.
2013:
Fram – Haukar, 3:1.
Fram vann tvo fyrstu leikina og sló þar með vopnin úr höndum Hauka sem voru í fyrsta sinn í úrslitum frá 2010. Fyrsta Íslandsmeistaratitli Fram í sjö ár var fagnað innilega í Framhúsinu eftir 22:20 sigur í fjórða leik mánudaginn 6. maí.
2014:
ÍBV – Haukar, 3:2.
Ein af eftirminnilegri úrslitarimmum um Íslandsmeistaratitilinn og það sem markaði komu ÍBV í fremstu röð í karlaflokki. Liðin unnu heimaleiki sína í fjórum fyrstu leikjunum. Agnar Smári Jónsson tryggði ÍBV Íslandsmeistaratitilinn í 29:28 sigri í oddaleik í barmafullum Ásvöllum þar sem hver fermetri utan vallar var nýttur fyrir áhorfendur.
2015:
Haukar – Afturelding, 3:0.
Eftir að hafa hafnaði í fimmta sæti í Olísdeildinni risu leikmenn Hauka upp á afturlappirnar í úrslitakeppninni og töpuðu ekki leik. Afturelding steinlá í þremur leikjum fyrir Haukum í úrslitum. Matthías Árni Ingimarsson, fyrirliði Hauka, tók við Íslandsbikarnum að Varmá eftir 27:24 sigur í þriðja úrslitaleiknum.
2016:
Haukar – Afturelding, 3:2.
Rimma liða félaganna var jafnari þetta árið og leikirnir hnífjafnir og spennandi. Afturelding vann tvo leiki á Ásvöllum og Haukar svöruðu um hæl með því að að vinna tvo leiki í Mosfellsbæ. Oddaleikurinn í Ásvöllum fimmtudaginn 19. maí lauk með þriggja marka sigri Hauka, 34:31, sem ráku af sér heimaleikjadrauginn.
2017:
Valur – FH 3:2.
Valsmenn höfnuðu í sjöunda sæti í Olísdeildinni og stóðu og þóttu ekki líklegastir til að vinna titilinn þrátt fyrir sigur í bikarkeppninni og frábæran árangur í Evrópubikarkeppninni. Valur lagði ÍBV í oddaleik í Vestmannaeyjum í átta liða úrslitum og var þar með kominn á sigurbraut. Deildarmeistarar FH lögðu Aftureldingu í undanúrslitum, 3:0, og Valur vann Fram, einnig 3:0. Æsispennandi fimm leikja rimmu um Íslandsmeistaratitilinn lauk með sigri Vals í oddaleik í Kaplakrika sunnudaginn 21. maí, 27:20.
2018:
ÍBV – FH, 3:1.
Þetta var tímabil ÍBV sem vann allt sem hægt var að vinna á tímabilinu. ÍBV vann Hauka, 3:0, í undanúrslitum á sama tíma og viðureign FH og Selfoss lauk ekki fyrr en með sigri FH í oddaleik. Í úrslitum þá tókst FH að jafna metin með sigri í Kaplakrika í annarri viðureign liðanna, 28:25. Lemstrað FH-lið varð að bíta í það súra epli að sjá Eyjamenn taka við Íslandsbikarnum í Kaplakrika eftir öruggan sigur í fjórða leik, 28:20. Í annað sinn á fjórum árum sigldu leikmenn ÍBV með Íslandsbikarinn heim eftir að hafa veitt honum viðtöku í Hafnarfirði.
2019:
Selfoss – Haukar, 3:1.
Nú var röðin komin að Selfossi að njóta ávaxtanna að uppeldisstarfi síðustu ára. Með Elvar Örn Jónsson og Hauk Þrastarson í aðalhlutverkum stóðst enginn liði Selfoss snúning. Haukar unnu ÍBV í undanúrslitum en Selfoss lagði Val. Í fjórða leik úrslitanna vann Selfoss liðsmenn Hauka, 35:25, og tók við Íslandsbikarnum á kyrru og fallegu kvöld á Selfossi. Já, það var sumar á Selfossi.
2020:
Úrslitakeppnin var kórónuveirunni að bráð.
2021:
Valur – Haukar, 2:0.
Í skini á milli skúra í kórónuveirufaraldrinum var hægt að koma á laggirnar snöggsoðinni útgáfu af úrslitakeppni sem lauk föstudaginn 18. júní þegar Valur vann Hauka öðru sinni, 34:29, á Ásvöllum. Valur var í kröppum dansi í undanúrslitum og vann ÍBV samanlagt með einu marki eftir háspennuleik í Origohöllinni. Stjörnumenn velgdu Haukum einnig undir uggum í hinni rimmu undanúrslitanna.
2022:
Valur – ÍBV, 3:1.
Aftur var mögulegt að halda hefðbundna úrslitakeppni. ÍBV komst í úrslit í fyrsta sinn í fjögur á eftir að hafa lagt Hauka í undanúrslitum. Valsmenn létu ekkert stöðva sig. Þeir unnu Selfoss með nokkrum yfirburðum í undanúrslitum og lögðu síðan ÍBV í þremur af fjórum úrslitaleikjum liðanna, síðast 31:30, í Vestmannaeyjum laugardaginn 28. maí. Í fyrsta sinn sigldi lið með Íslandsbikar karla frá Vestmannaeyjum og það var glatt á hjalla um borð í Herjólfi á hálftíma siglingu frá Heimaey til Landeyjarhafnar.