- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukur og félagar fóru örugglega í átta liða úrslit Meistaradeildar

Talant Dujshebaev þjálfari Industria Kielce mætti nýrakaður til leiks og stýrði sínum mönnum til sigurs á heimavelli. Ljósmynd/EPA
- Auglýsing -

Haukur Þrastarson og liðsfélagar í pólska meistaraliðinu eru komnir í átta liða úrslit í Meistaradeildar karla í handknattleik eftir að hafa lagt danska meistaraliðið GOG öðru sinni á einni viku á heimavelli í kvöld, 33:28. Kielce vann samanlagt með 10 marka mun í tveimur leikjum.


Franska liðið Montpellier tryggði sér einnig sæti í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar. Montpellier lagði RK Zagreb, 30:24, á Frakklandi í kvöld en liðin skildu jöfn í Zagreb fyrir viku, 27:27.

Haukur skoraði fjögur mörk í fimm tilraunum í sigurleik Kielce í kvöld. Misbrestur var á talningu stoðsendinga í leiknum. Alltént er engin stoðsending skráð á leikmenn Kielce sem verður að teljast ósennilegt að rétt sé.

Alex Dujshebaev skoraði sjö mörk fyrir Kielce og var markahæstur. Frakkinn Dylan Nahi var næstur með fimm mörk. Igor Karacic skoraði fjögur mörk eins og Selfyssingurinn. Aron Mensing skoraði sex mörk fyrir GOG og Hjalte Lykke skoraði í fimm skipti.

Stas Skube skoraði sex mörk fyrir Montpellier sem leikur í átta liða úrslitum Meistaradeildarinnar í fyrsta sinn í sex ár. Arthur Lenne, Lucas Pellas og Carl Percy Carlsson skoruðu fjögur mörk hver. Ivan Cupic og Adin Faljic voru markahæstir hjá Zagreb með fjögur mörk hvor.

Annað kvöld lýkur útsláttarkeppninni. Þá eigast við ungversku liðin Veszprém og Pick Szeged annarsvegar og PSG og Wisla Plock hinsvegar.

Barcelona, Magdeburg, THW Kiel og Aalborg er þegar komin í átta liða úrslit og sátu þar af leiðandi yfir í fyrstu umferð útsláttarkeppninnar. Átta liða úrslit fara fram undir lok þessa mánaðar.

Í átta liða úrslitum mætast:
Montpellier – THW Kiel.
Industria Kielce – Magdeburg.
Szeged eða Veszprem – Aalborg Håndbold.
Wisla Plock eða PSG – Barcelona.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -