- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukur varð pólskur meistari í þriðja sinn með Kielce

Haukur Þrastarson og félagar tóku við sigurlaunum sínum við glæsilega athöfn. Mynd/pgnig-superliga.pl
- Auglýsing -

Haukur Þrastarson fagnaði í kvöld pólska meistaratitlinum í handknattleik með samherjum sínum í Barlinek Industria Kielce eftir sigur á Wisła Płock í æsilega spennandi leik á heimavelli, 27:24. Barlinek Industria Kielce og Wisła Płock enduðu jöfn að stigum en Kielce hreppti efsta sætið eftir að hafa unnið innbyrðis leiki liðanna samanlagt með eins marks mun, 54:53.

Alex Dujshebaev skoraði markið mikilvæga á síðustu stundu viðureignarinnar í Kielce í kvöld.

Þetta er í 12. sinn í röð sem Barlinek Industria Kielce verður pólskur meistari og í 20. sinn alls. Haukur er meistari með Kielce þriðja árið í röð.

Haukur Þrastarson t.h. með gullverðlaunapeninginn um hálsinn. Mynd/pgnig-superliga.pl


Haukur sleit krossband í hné í byrjun desember og hefur ekki leikið með liðinu síðan. Hann var vitanlega í keppnishöllinni á leiknum í kvöld og tók við gullverðlaunapeningi sínum ásamt samherjum sínum. Eftir því sem næst verður komist er Haukur á góðri leið í endurhæfingu eftir krossbandaslitið.

Nokkrir leikir eftir

Kielce á eftir að leika til úrslita í pólsku bikarkeppninni áður en leiktíðin verður úti auk þess sem liðið er komið í undanúrslit Meistaradeildar Evrópu og verður þar af leiðandi á úrslitahelgi keppninnar í Köln 17. og 18. júní.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -