- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hef náð einhverjum mínútum í flestum leikjum

- Auglýsing -

Meiðsli hafa sett strik í þátttökureikning Framarans Kjartans Þórs Júlíussonar með íslenska landsliðinu á Evrópumeistaramóti 20 ára landsliða. Eftir langvarandi meiðsli á síðasta keppnistímabili var Kjartan Þór kominn á gott ról í vor og byrjun sumars en viku áður en haldið var til Slóveníu meiddist hann aftur. Vonir stóðu til að þau yrðu ekki langvarandi en því miður hefur annað komið á daginn. Kjartan Þór hefur þó komið eitthvað við sögu í flestum leikjum Íslands en ekki getað sýnt sínar allra bestu hliðar.

Hefur verið lengi meiddur

„Ég hef verið mikið meiddur, bæði með Fram og hérna úti. Ég hef náð einhverjum mínútum í flestum leikjum en var að vonast eftir að vera í betra formi og ná þar með að spila meira á mótinu,“ sagði Kjartan Þór þegar handbolti.is hitti hann að máli á hóteli landsliðsins í Laško upp úr hádeginu í dag.

„Ég meiddist viku fyrir brottför. Kári [sjúkraþjálfari] vonaðist til að ég jafnaði mig á nokkrum dögum. Þar af leiðandi skellti ég mér með út. Síðan kom í ljós að batinn tæki lengri tíma en nokkra daga,“ sagði Kjartan Þór og bætti við að óljóst væri hvort meiðslin tengdust náranum en hann segir nánar frá þeim í viðtalinu efst í þessari frétt.

„Þrátt fyrir allt þá hef ég náð aðeins að vera með og skora kannski eitt mark í leik. Það er jákvætt fyrir mig og liðið,“ sagði Kjartan Þór sem vonast til þess að fyrir endann fari að sjást á sjúkrasögu frá því í nóvember á síðasta ári. Meiðslin nú eru reyndar ekki þau sömu og héldu Kjartani Þór frá keppni nær allt síðasta keppnistímabil.

Kjartan Þór segir íslenska liðið hafa leikið af miklum krafti á mótinu og sýnt miklar framfarir sem hafi skilað því alla leið inn í átta liða úrslit. „Ég vona bara að við höldum áfram á þessum nótum og komum enn sterkari til baka á næsta ári á HM,“ sagði Kjartan Þór Júlíusson einn leikmanna 20 ára landsliðsins í handknattleik á Evrópumótinu í Slóveníu.

Lengra viðtal við Kjartan Þór er efst í þessari frétt.

Íslenska landsliðið leikur síðasta leik sinn á Evrópumótinu á morgun, sunnudag. Þá verður bitist við Norðmenn um 7. sæti mótsins. Flautað verður til leiks klukkan 10 og verður handbolti.is vitanlega með textalýsingu úr keppnishöllinni í Celje.

Yngri landslið.

EMU20 karla: Leikir, úrslit og staðan, milliriðlar og sætisleikir

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -