Króatar og Þjóðverjar mætast á sunnudag í úrslitaleik Evrópumóts karla í handknattleik, skipað leikmönnum 19 ára og yngri. Þjóðverjar mörðu sigur á Spánverjum, 31:30, í hörkuleik í gærkvöld og Króatar lögðu Slóvena, 26:22, í hinni viðureign undanúrslita. Eftir jafnan fyrri hálfleik tóku Króatar völdin í síðari hálfleik og voru mun sterkari.
Slóvenar og Spánverjar leika um bronsverðlaunin. Danir, undir stjórn Arnórs Atlasonar mæta Portúgölum í leik um fimmta sætið. Íslendingar og Svíar eigast við í keppni um 7. sætið. Sjö efstu sæti mótsins veita keppnisrétt á Ólympíudögum æskunnar sem fram eiga að fara á næsta ári.
Ungverjar sem unnu Norðmenn örugglega, 28:21, mæta Frökkum í dag í leik um níunda sætið. Norðmenn og Ítalir, sem töpuðu fyrir Frökkum, keppa um 11. sætið. Allar viðureignirnar um sæti níu til sextán fara fram í dag. Leikirnir um átta efstu sætinu verða háðir á morgun, sunnudag.
Rússar hafa verið heillum horfnir á mótinu. Þeir töpuðu fyrir Ísraelsmönnum í gær, 33:31, og mæta Austurríki í dag í leik um að forðast júmbósætið, það neðsta. Serbar og Ísraelsmenn leika um 14. sæti.
Ljóst er að landslið Austurríkis, Ísraels, Serbíu og Rússa eru fallin í B-deild. Ekki liggur fyrir hverjir taka sæti í A-keppninni vegna þess að úrslit í B-keppni Evrópumótsins er ekki lokið en leikið er í þremur hlutum.