Ásdís Þóra Ágústsdóttir hefur skrifað undir nýjan samning við uppeldisfélag sitt Val. Nýi samningurinn við Evrópubikar- og Íslandsmeistarana gildir til tveggja og hálfs árs, til sumarsins 2029.
Ásdís Þóra er 23 ára leikstjórnandi sem hefur leikið með Val nánast alla tíð. Auk þess hefur hún leikið með Selfossi að láni frá Val og var samningsbundin Lugi í Svíþjóð um skeið eins og yngri systir sín Lilja, sem einnig leikur með Val.
Útsjónarsamur leikstjórnandi
„Ég er mjög ánægður með að Ásdís hafi framlengt við félagið. Hún er útsjónarsamur leikstjórnandi sem hefur frábær skot og gott auga fyrir spili. Ásdís er frábær liðsfélagi sem hefur mikinn metnað að halda áfram að þróa sinn leik á næstu árum. Það verður gaman að vinna með henni áfram,“ sagði Anton Rúnarsson þjálfari Vals í tilkynningu frá handknattleiksdeild félagsins.
Ásdís Þóra hefur skorað 30 mörk í tólf leikjum í Olísdeildinni á tímabilinu. Hún hefur þjálfað yngri flokka Vals undanfarin ár og verið liðsstjóri U-liðsins undanfarin tvö ár.




