Eftir tvo slaka leiki í röð þá hertu leikmenn Selfoss upp hugann í dag og náðu að sýna betri leik þegar þeir sóttu Stjörnuna heim í TM-höllina í 14. umferð Olísdeildar kvenna. Frammistaðan dugði Selfoss-liðinu ekki til sigurs en sýndi a.m.k. að liðið getur gert betur en gegn ÍBV um síðustu helgi og í síðari hálfleik gegn Fram nokkrum dögum fyrr. Lokatölur, 26:22, fyrir Stjörnuna sem skoraði þrjú síðustu mörk leiksins.
Stjarnan var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 12:10. Helena Rut Örvarsdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir voru allt í öllu í sóknarleik Stjörnunnar. Selfossliðið fékk ekkert ráðið við Helenu Rut sem skoraði 12 mörk, flest með þrumuskotum en ekkert úr vítaköstum. Lena Margrét skoraði 10 mörk, þrjú þeirra af sjö metra línunni.
Eins og stundum áður í vetur þá var Katla María Magnúsdóttir öflug í sóknarleik Selfoss. Hún skoraði níu mörk. Skarð var fyrir skildi hjá Selfossi, Roberta Strope var ekki með. Cornelia Hermansson markvörður sýndi sínar bestu hliðar og var með 36% hlutfallsmarkvörslu.
Mörk Stjörnunnar: Helena Rut Örvarsdóttir 12, Lena Margrét Valdimarsdóttir 10/3, Vigdís Arna Hjartardóttir 2, Anna Karen Hansdóttir 1, Stefanía Theodórsdóttir 1.
Varin skot: Darija Zecevic 12, 35,3%.
Mörk Selfoss: Katla María Magnúsdóttir 9/3, Arna Kristín Einarsdóttir 4, Tinna Soffía Traustadóttir 3, Karlotta Óskarsdóttir 2, Ásdís Þóra Ágústsdóttir 2, Adela Eyrún Jóhannsdóttir 1, Rakel Guðjónsdóttir 1.
Varin skot: Cornelia Hermansson 14/1, 35,9%.
Staðan í Olísdeild kvenna.