„Við erum í fínu standi fyrir fyrsta leik,“ segir markvörðurinn Viktor Gísli Hallgrímsson sem farið er að klægja í fingurnar eftir að flautað verður til fyrsta leiks íslenska landsliðsins í handknattleik á Evrópumótinu í handknattleik í Kristianstad í Svíþjóð. Klukkan 17 á morgun hefst fyrsti leikur íslenska landsliðsins. Að þessu sinni verður landslið Ítalíu andstæðingurinn. Ítalir eru með á EM í annað sinn. Þeir voru fyrst með 1998 þegar þeir voru gestgjafar mótsins. Þá var íslenska landsliðið ekki með.
60 mínútur í París
„Við markmennirnir fengum sinn leikinn hvor í París. Við fengum tilfinninguna fyrir 60 mínútna leik sem var mjög gott,“ segir Viktor Gísli sem segist vera í fínu formi og ekkert sé til fyrirstöðu að hann geti sýnt allar sínar bestu hliðar ásamt Björgvini Páli Gústavssyni sem tekur þátt í sínu 19. stórmóti. Viktor Gísli er að hefja sitt 7. stórmót með A-landsliðinu.

Fjölskylda og vinir
„Ég hlakka til stórmóta á hverju ári,“ segir Viktor Gísli sem hlakkar til að taka þátt í stemningunni sem myndast í Kristianstad Arena en reiknað er með nærri 3.000 Íslendingum í keppnishöllina sem rúmar 4.500 áhorfendur. „Þetta verður okkar heimavöllur, engin spurning,“ segir Viktor Gísli sem á von á ættingjum og vinum á leikina á EM.
„Margt af mínu fólki kemur á fyrstu leikina, þar á meðal foreldrar mínir, kærasta mín og margir vinir og kunningjar. Það verður fullt af fólki. Ég er mjög spenntur.“
Ítalir leika um margt ólíkan handknattleik og við aðrar þjóðir. Oft hafa þeir engan línumann og eru afar framliggjandi í varnarleiknum og elta andstæðinginn oft fram á miðju.
„Við höfum reynt eftir getu að búa okkur undir að mæta þeim þar sem þeir leika mjög krefjandi leik. Fyrst og fremst skiptir máli fyrir okkur að við náum okkur á strik. Þá eigum við að vinna,“ segir Viktor Gísli Hallgrímsson, markvörður íslenska landsliðsins.





