Því miður tókst frændum okkar í færeyska landsliðinu í handknattleik ekki að tryggja sér farseðilinn á heimsmeistaramótið í handknattleik karla í dag. Færeyska landsliðið tapaði með átta marka mun fyrir Norður Makedóníu í Boris Trajkovski-íþróttahöllinni í Skopje í dag, 34:26. Færeyingar mættu með sjö marka forystu til leiks eftir 34:27 sigur í Þórshöfn á miðvikudaginn. Forskotið dugði ekki þegar á hólminn var komið á einum erfiðasta útivelli í Evrópu fyrir framan 6.800 áhorfendur
Samanlögð úrslit leikjanna tveggja, 61:60, fyrir Norður Makedóníu.
Færeyska liðið stóð vel í Norður Makedóníumönnum lengsta af fyrri hálfleiks. Staðan var 19:15 að honum loknum. Í síðari hálfleik varð róðurinn þyngri hjá færeysku leikmönnunum sem gerðu þó hvað þeir gátu.
Tyrkneskir dómarar leiksins þóttu ekki vera sanngjarnir. Meðal annars fengu Norður Makedóníumenn að leika langar sóknir meðan Færeyingum var sýnd lítil þolinmæði við sóknarleikinn.
Mörk Færeyja: Elias Ellefsen á Skipagøtu 8, Leivur Mortensen 4, Hákun West av Teigum 3, Teis Horn Rasmussen 3, Óli Mittún 2, Vilhelm Poulsen 2, Pætur Mikkjalsson 1, Tróndur Mikkelsen 1, Pauli Mittún 1, Kjartan Johansen 1.
Varin skot: Pauli Jacobsen 7, 24% – Nicholas Satchwell 3, 23%.
Sjá einnig:
Myndir: Stóra vónbrotið í Skopje
HM-endaspælið glapp Føroyum av hondum
Zharko Peshevski var markahæstur leikmenna Norður Makedóníu með átta mörk. Filip Kuzmanovski var næstur með sjö mörk. Tomislav Jagurinoski fyrrverandi leikmaður Þórs Akureyri tók þátt í leiknum en skoraði ekki mark.