- Auglýsing -
- Í dag eru 22 ár síðan Króatía varð heimsmeistari í handknattleik karla í fyrsta skipti. Króatar unnu Þjóðverja, 34:31, í úrslitaleik Pavilhão Atlântico í Lissabon. Mirza Džomba var markahæstur hjá Króötum í leiknum með átta mörk. Markus Baur skoraði jafnmörg mörk fyrir þýska landsliðið. Frakkar unnu bronsverðlaunin með sigri á Spánverjum, 27:22.
- Danir og Króatar mættust fyrst í úrslitaleik á stórmóti á EM 2008 í Noregi. Danir unnu leikinn, 24:20, sem fram fór í Hákonshöllinni í Lillehammer 27. janúar 2008 að viðstöddum 9.052 áhorfendum. Króatar lögðu Frakka í undanúrslitaleik, 24:23. Danska landsliðið vann Þjóðverja einnig með einu marki í undanúrslitum, 26:25.
- Úrslitaleikur Danmerkur og Króatíu hefst klukkan 17 í Unity Arena í Bærum. Klukkan 14 eigast við á sama stað landslið Frakklands og Portúgal í leik um bronsverðlaunin. Portúgal hefur aldrei áður náð svo langt á stórmóti í handknattleik karla.
- Króatar hafa einu sinni unnið heimsmeistaratitilinn í handknattleik, árið 2003. Þeir unnu sín fyrstu verðlaun á HM á Íslandi 1995, silfurverðlaun þegar þeir töpuðu fyrir Frökkum í úrslitaleik í Laugardalshöll, 23:19. Alls hafa Króatar þrisvar hlotið silfurverðlaun á HM karla og einu sinni bronsverðlaun.
- Danir eiga þrenn gullverðlaun frá HM karla, þrenn silfurverðlaun og ein bronsverðlaun. Fyrstu verðlaun danska landsliðsins voru úr silfri eftir tap fyrir Tékkóslóvakíu í framlengdum úrslitaleik HM 1967. Úrslitaleikurinn fór fram í Västerås í Svíþjóð.
- Igor Karačić og Domagoj Duvnjak leika í dag sinn síðasta landsleik fyrir Króatíu. Báðir eru staðráðnir í að láta gott heita með landsliðinu. Karačić var ekki í keppnishóp Króata í upphafi HM en svaraði kalli Dags Sigurðssonar um að koma til móts við landsliðið þegar Duvnjak meiddist í leik við Egypta í þriðju og síðustu umferð riðlakeppninnar 20. janúar.
- Luka Cindrić tekur ekki þátt í úrslitaleiknum. Hann ferðaðist með króatíska liðinu til Noregs og Dagur Sigurðsson landsliðsþjálfari gaf í skyn í gær að hugsanlega tæki Cindrić þátt í úrslitaleiknum. Af því verður semsagt ekki.
- Hvernig sem úrslitaleikurinn í dag fer þá hefur verið skipulögð móttökuathöfn í Zagreb á morgun fyrir leikmenn, þjálfara og aðra starfsmenn króatíska landsliðsins. Til stendur að slá upp hátíð á Ban Jelačić-torgi í Zagreb eftir því sem fjölmiðlar í landinu segja frá. Landsliðið var hyllt á sama stað þegar það kom heim með silfurverðlaun frá EM karla 2020.
- Sett verður áhorfendamet á handboltaleik í Noregi í dag þegar úrslitaleikur HM fer fram í Unity Arena í Bærum. Uppselt er á leikinn, 15.0000 áhorfendur. Fyrra met var sett þegar 12.377 voru á viðureign Elverum og PSG í Meistaradeild karla í handknattleik í Hákonshöllinni í Lillehammer 2019. Danskir fjölmiðlar segja að þeir 2.000 miðar sem Dönum stóð til boða hafi selst í einum hvelli. Króatar fengu 700 miða á úrslitaleikinn, eftir því sem TV2 í Danmörku segir frá. TV2 segir að allt að 5.000 Króatar verði á meðal áhorfenda.
- Mikill áhugi var fyrir undanúrslitaleik Króata og Frakka á fimmtudagskvöldið. Fjörtíu prósent króatísku þjóðarinnar fylgdist með leiknum í sjónvarpi sem þykir gríðarlega mikið áhorf þar í landi. Reiknað er með að enn fleiri fylgist með leiknum í dag, ekki síst ef vel gengur hjá króatíska liðinu.
- Danska landsliðið hefur leikið 36 leiki í röð á HM og unnið 34 þeirra, tveimur hefur lokið með jafntefli.
- Spánverjarnir Ignacio Garcia og Andreu Marin Lorente dæma úrslitaleik Króatíu og Danmerkur sem hefst klukkan 17 í dag. Spánverjarnir dæmdu tvo leiki íslenska landsliðsins á HM að þessu sinni, leikina við Slóvena og Króata.
- Norður Makedóníumennirnir Gjorgji Nachevski og Slave Nikolov dæma viðureign Frakka og Portúgala um þriðja sæti.
- Daninn Mathias Gidsel hefur skorað 64 mörk á HM, ekkert þeirra úr vítakasti. Hann vantar sex mörk í viðbót úr opnum leik til þess að jafna met Suður Kóreumannsins Kyung-Shin Yoon sem skoraði 70 mörk, ekkert úr vítakasti, á HM 1995 á Íslandi. Markamet HM að meðtöldum mörkum úr vítaköstum á Norður Makedóníumaðurinn Kiril Lazarov. Hann skoraði 92 mörk á HM 2009 sem fram fór í Króatíu.