- Auglýsing -
- Auglýsing -

HM staðreyndir fyrir úrslitaleikinn

Danir eru ríkjandi heimsmeistarar frá tveimur síðustu heimsmeistaramótum. Mynd/EPA
- Auglýsing -
  • Óvíst er hvort franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic geti tekið þátt í úrslitaleik Frakka og Dana um heimsmeistaratitilinn í handknattleik í Stokkhólmi í kvöld. Karabatic hefur lítið leikið á mótinu vegna meiðsla. Hann var til að mynda ekkert með Frökkum í leiknum við Svía í undanúrslitum á föstudagskvöld en var þó á leikskýrslu.
  • Ef Frakkar vinna úrslitaleikinn í kvöld og Karabatic verður á leikskýrslu verður hann annar handknattleiksmaðurinn í sögunni til þess að verða fimm sinnum heimsmeistari á ferlinum. Sá eini sem hefur unnið það afrek er franski markvörðurinn Thierry Omeyer
  • Danska landsliðið verður fyrsta landsliðið í sögunni í handknattleik karla sem verður heimsmeistari þrisvar í röð ef liðið vinnur úrslitaleikinn. Flautað verður til leiks klukkan 20 í kvöld og verður útsending á RUV2 frá leiknum.
  • Danir unnu Norðmenn í úrslitaleik HM 2019 og Svía á HM í Egyptalandi fyrir tveimur árum.
Frakkar fagna sigri á Svíum í undanúrslitaleik HM á föstudagskvöld. Mynd/EPA
  • Sænska karlalandsliðið 1997, 1999 og 2001 er eina landsliðið hingað til þessa sem leikið hefur þrisvar í röð til úrslita á HM karla.  Svíar unnu úrslitaleikinn 1999 gegn Rússum en töpuðu fyrir Rússum í úrslitaleik 1997 og fyrir Frökkum árið 2001. 
Slave Nikolov og Gjorgji Nachevski dómarar úrslitaleiksins. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Gjorgji Nachevski og Slave Nikolov frá Norður Makedóníu dæma úrslitaleik Frakka og Dana á heimsmeistaramóti karla á HM í kvöld. Þeir félagar dæmdu tvo leiki með íslenska landsliðinu á HM á dögunum, m.a. viðureignina við Svía í Scandinavium í Gautaborg.
Einn fremsti og sigursælasti handknattleiksmaður sögunnar, Frakkinn Nikola Karabatic, ræðir við fréttamenn í Stokkhólmi í gær. Mynd/EPA
  • Danmörk og Frakkland mættust síðast í úrslitaleik á HM karla, og reyndar í eina skiptið fram til þessa, á HM 2011 í Malmö Arena. Frakkar unnu, 37:35, eftir framlengingu. Karabatic skoraði 10 mörk í leiknum og var markahæstur í franska liðinu. Mikkel Hansen var atkvæðamestur Dana, einnig með 10 mörk. 
Nikolaj Jacobsen getur unnið einstakt afrek sem landsliðsþjálfari í kvöld verði Danir fyrstir til þess að vinna HM þrisvar í röð. Mynd/EPA
  • Síðasta mættust landslið Dana og Frakka í úrslitaleik um gullverðlaun á stórmóti á Ólympíuleikunum í Ríó í Brasilíu árið 2016. Danir unnu með tveggja marka mun, 28:26. Guðmundur Þórður Guðmundsson var landsliðsþjálfari Dana á þeim tíma. 
Guðmundur Þórður Guðmundsson. Mynd/Hafliði Breiðfjörð
  • Danska landsliðið vann Frakka í framlengdum leik um bronsverðlaunin á EM karla fyrir ári, 35:32. 
  • Frakkar eru ríkjandi Ólympíumeistarar í handknattleik karla og reyndar kvenna líka.
  • Margt hefur verið gagnrýnt í skipulagi heimsmeistaramótsins í handknattleik karla sem lýkur í kvöld í Stokkhólmi. Nýjasta óánægjan snýr að því hversu seint úrslitaleikurinn hefst, klukkan 21 að staðartíma. Segja margir það vera allt of seint og koma m.a. í veg fyrir að börn fái að horfa á leikinn. 
Guillaume Gille varð heimsmeistari sem leikmaður oftar en einu sinni og var einnig aðstoðarþjálfari franska landsliðsins þegar það varð heimsmeistari 2017. Mynd/EPA
  • Guillaume Gille verður þriðji maður til þess að verða heimsmeistari bæði sem leikamður og landsliðsþjálfari vinni Frakkar úrslitaleikinn. Þeir eru sem hafa unnið HM bæði sem leikmenn og landsliðsþjálfarar eru Þjóðverjinn Heiner Brand og Frakkinn Didier Dinart. Gille varð heimsmeistari sem leikmaður með Frökkum 2001 og 2009.
  • Uppselt er á úrslitaleik Dana og Frakka sem fram fer í Tele 2-Arena í Stokkhólmi. Um 22 þúsund áhorfendur verða viðstaddir og hafa aldrei verið fleiri á handboltaleik í Svíþjóð
  • Frakkarnir Dika Mem, Ludovic Fabregas og Melvyn Richardson leika allir með Barcelona en félagið er það eina sem hefur átt leikmenn í öllum úrslitaleikjum heimsmeistaramóts karla frá árinu 2007.

    HM2023: Leikir og leiktímar á síðasta mótsdegi
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -