Eyjamaðurinn og leikmaður U19 ára landsliðs karla er í fimmta sæti á lista yfir þá leikmenn sem áttu flestar stoðsendingar á heimsmeistaramóti 19 ára landsliða sem lauk í Varazdin í Króatíu í gærkvöld. Elmar er með skráðar 39 stoðsendingar í sjö leikjum með íslenska liðinu á mótinu.
Þegar litið er til meðaltals þá varð Elmar í þriðja sæti með 5,6 sendingar að meðaltali í leik. Aðeins Svíinn Axel Mansson með 6,1 sendingu og Færeyingurinn Óli Mitttún með 8,75 stoðsendingar, eru fyrir ofan. Mansson og Elmar tók þátt í sjö leikjum hvor á mótinu en Óli lék átta leiki og varð auk þess með lang flestar stoðsendingar, 70.
Nappaði boltanum níu sinnum
Elmar er í 13. sæti yfir þá leikmenn mótsins sem tókst að nappa boltanum hvað oftast af andstæðingum sínum. Það tókst Elmari í níu skipti, eða ríflega einu sinni í hverjum leik.
Kjartan Þór jafn þeim besta
Af íslensku piltunum varð Kjartan Þór Júlíusson næstur á eftir Elmari með 22 stoðsendingar eða 3,1 að jafnaði í leik. Kjartan Þór situr í 20. sæti jafn níu öðrum leikmönnum, þar á meðal Frederik Emil Pedersen sem var valinn mikilvægasti leikmaður heimsmeistaramótsins.
Sá markahæstir lék sex leiki
Reynir Þór Stefánsson varð markahæstur leikmanna íslenska liðsins á mótinu með 35 mörk í sjö leikjum. Reyndar tók Reynir Þór þátt í sex leikjum. Hann var aðeins á leikskýrslu í þeim síðasta en gat ekki leikið með vegna meiðsla.
Fastir fyrir
Ívar Bessi Viðarsson og Skarphéðinn Ívar Einarsson voru fastir fyrir í vörn Íslands í mótinu og gengu oft full vasklega fram að mati dómaranna. Þeir eru ásamt fleirum í 20. sæti yfir leikmenn sem oftast voru dæmd á vítaköst. Á hvorn þeirra voru dæmd fimm vítaköst í mótinu. Skarphéðni var vikið átta sinnum af leikvelli í tvær mínútur og Ívari í sjö skipti. Báðir eru á topp 10 listanum í þeim efnum.
Ísak Steinsson, sem lék mest í marki íslenska landsliðsins á mótinu, var með 31% hlutfallsmarkvörslu, 9,20 skot að jafnaði í leik.
Athyglisvert er að enginn Íslendingur er á 35-manna lista yfir þá leikmenn sem gerði flest mistök í mótinu.
HMU19: Dagskrá og úrslit síðustu leikja mótsins
HMU19: Spánverjar bestir – Óli markahæstur
HMU19: Uppskeran var ekki samræmi við væntingar okkar
Grúskarar geta litið nánar á skjölin í viðhengi hér fyrir neðan.