Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 19 ára og yngri, hóf keppni í milliriðlakeppni um sæti 17 til 32, á heimsmeistaramótinu af miklum krafti. Íslensku piltarnir kafsigldu Suður Kóreubúa með 15 marka mun, 38:23, eftir að hafa verið fimm mörkum yfir í hálfleik, 18:13. Allir leikmenn íslenska liðsins komu við sögu í leiknum og dreifðist álagið því vel.
Næsti leikur verður á móti landsliði Barein á morgun og hefst viðureignin klukkan 13.30. Handbolti.is verður að vanda með textalýsingu og streymi frá viðureigninni.
Íslensku piltarnir voru með yfirhöndina í leiknum í dag frá upphafi til enda. Suður Kóreumenn voru aldrei langt undan lengi vel í fyrri hálfleik. Undir lok hálfleiksins small vörnin vel saman hjá piltunum og hvert markið rak annað eftir hröð upphlaup. Það lagði grunn að fimm marka forskoti eftir 30 mínútur, 18:13.
Í síðari hálfleik þá fengu leikmenn Suður Kóreu ekki rönd við reist gegn frábærri 5/1 vörn íslenska liðsins og afbragðsleik markvarðanna Ísaks Steinssonar og Breka Hrafns Árnasonar. Munurinn jókst jafnt og þétt og varð mestur 17 mörk, 37:20. Suður Kóreubúum féll allur ketill í eld. Þeir náðu engum áttum. Skipti engu þótt brugðið væri til þess ráðs að taka leikhlé.
Íslensku strákarnir sendu sterk skilaboð með leiknum í morgun um hvers þeir eru megnugir. Vonandi tekst þeim að fylgja leik sínum eftir gegn lærisveinum Maksim Akbachev frá Barein.
Mörk Íslands: Hinrik Hugi Heiðarsson 6, Elmar Erlingsson 5, Kjartan Þór Júlíusson 4, Össur Haraldsson 4, Andri Fannar Elísson 3, Eiður Rafn Valsson 3, Reynir Þór Stefánsson 3, Birkir Snær Steinsson 2, Daníel Örn Guðmundsson 2, Þorvaldur Örn Þorvaldsson 2, Haukur Ingi Hauksson 1, Hans Jörgen Ólafsson 1, Ívar Bessi Viðarsson 1, Skarphéðinn Ívar Einarsson 1.
Varin skot: Ísak Steinsson 16/1, 50% – Breki Hrafn Árnason 3, 30%.
HMU19: Milliriðlakeppni – neðri og efri hluti – úrslit – staðan
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.