Flautað var til leiks á 22. heimsmeistaramóti kvenna í handknattleik skipað leikmönnum 20 ára og yngri í Slóveníu í morgun. Leikið er í tveimur keppnishúsum í Celje og einu í Lasko, bæ skammt frá Celje.
Metfjöldi þátttökuliða
Alls taka 32 lið þátt í mótinu og er það í fyrsta sinn sem þátttökulið eru svo mörg. Ekki var slegið slöku við á fyrsta leikdegi. Öll liðin voru í eldlínunni og fóru fram 16 viðureignir í átta riðlum. Úrslitin er að finna hér fyrir neðan.
Með í fyrsta sinn
Þrjár þjóðir senda lið í fyrsta sinn til keppni á heimsmeistaramóti í þessum aldursflokki, Gínea, Íran og Indland. A-landslið Írans tók fyrst þátt í heimsmeistarmóti á Spáni í desember sl. en handknattleik hefur vaxið fiskur um hrygg í landinu á síðustu árum, ekki aðeins á meðal karlmanna, heldur einnig hjá konum.
Ítalía er með á mótinu í fyrsta sinn í 39 ár og Bandaríkin öðluðust keppnisrétt í fyrsta skipti í 41 ár á HM í þessum aldursflokki.
Ungverjar sigurstranglegastir
Ungverjar urðu Evrópumeistarar 19 ára landsliða á síðasta ári og þykja vera með sigurstranglegasta liðið á þessu móti. Þess utan er Ungverjaland ríkjandi heimsmeistari í þessum aldursflokki kvenna. Síðast fór HM kvenna U20 ára fram fyrir fjórum árum. Mótið fyrir tveimur árum var fellt niður af alþekktri ástæðu.
A-riðill:
Slóvakía – Japan 17:29.
Indland – Holland 18:46.
B-riðill:
Íran – Gínea 19:19.
Svíþjóð – Túnis 32:25.
C-riðill:
Argentína – Ítalía 25:20.
Danmörk – Svartfjallaland 24:20.
D-riðill:
Noregur – Suður Kórea 26:22.
Frakkland – Brasilía 37:18.
H-riðill:
Pólland – Bandaríkin 37:14.
Ungverjaland – Egyptaland 39:20.
F-riðill:
Þýskaland – Chile 40:18.
Slóvenía – Mexíkó 37:18.
E-riðill:
Rúmenía – Angóla 26:23.
Tékkland – Litháen 33:16.
G-riðill:
Króatía – Kasakstan 36:15.
Sviss – Austurríki 26:33.