Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 21 árs og yngri, vann Serbíu í síðasta leik riðlakeppni heimsmeistaramótsins í Aþenu í Grikklandi í kvöld, 32:29, eftir að sex mörkum munaði á liðunum skömmu fyrir leikslok. Frábær varnarleikur lagði grunn að þessum sannfærandi sigri.
Íslenska liðið vann þar með riðilinn og tekur með sér tvö stig í milliriðlakeppnina sem fram fer á sunnudag og mánudag með leikjum við Egypta og Grikki. Stigin tvö auka verulega líkurnar á að íslenska landsliðinu takist að komast í átta liða úrslit mótsins sem er markmiðið.
Íslensku piltarnir réðu lögum og lofum í leiknum frá upphafi til enda í dag. Þeir gáfu tóninn í upphafi með því að skora þrjú fyrstu mörk leiksins. Serbar komust aldrei yfir í leiknum. Mestur varð munurinn fimm mörk í fyrri hálfleik. Þegar gengið var til búningsherbergja eftir 30 mínútna leik var staðan 16:14, Íslandi í vil.
Serbar skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiks. Nær komust þeir ekki. Íslensku piltarnir gáfu ekki þumlung eftir. Þeir léku öfluga vörn sem varð til þess að Serbar köstuðu boltanum hvað eftir annað frá sér. Þegar á leið leikinn jókst munurunn á sigurinn var aldrei í hættu.
Mjög góður leikur og sigur hjá íslenska liðinu sem fór erfiðlega af stað í mótinu en sýndi svo sannarlega styrk sinn í þessum leik gegn serbneska liðinu sem hafnaði í 3. sæti á Evrópumóti 20 ára landsliða fyrir ári.
Mörk Íslands: Simon Michael Guðjónsson 8, Andri Már Rúnarsson 4, Arnór Viðarsson 3, Benedikt Gunnar Óskarsson 3/3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 2, Kristófer Máni Jónasson 2, Stefán Orri Arnalds 2, Þorsteinn Leó Gunnarsson 2, Andri Finnsson 1, Ísak Gústafsson 1, Tryggvi Þórisson 1.
Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 6, 29% – Adam Thorstensen 3, 18%.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.