- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Höfum mikinn áhuga á því að horfa ofar á töfluna í vetur

Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari KA, ræðir við sína menn. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson
- Auglýsing -

„Undirbúningur hefur gengið vel. Við höfum æft stíft frá því um miðjan júlí. Auðvitað hefur þetta kannski verið pínu slitrótt þar sem við vorum með þrjá sterka leikmenn í U18 ára landsliði karla sem tók þátt í Evrópumótinu, þar af tvo leikmenn sem spila miðju og skyttu. Auk þess er Bjarni Ófeigur [Valdimarsson] að ná sér eftir meiðsli. Þar af leiðandi höfum við haft heldur fáar skyttur og miðjumenn á æfingum. En gamlir jaxlar hafa komið inná æfingar hjá okkur til að hjálpa til,“ segir Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA þegar handbolti.is innti hann eftir stöðuna á hans liði, rúmri viku áður en keppni hefst í Olísdeild karla.

Fyrir utan æfingar og þátttöku í Opna Norðlenska-mótinu í ágúst, sem KA stóð að eins og síðustu ár, þá fór KA-liðið í æfinga- og keppnisbúðir til Ungverjalands. Liðið er nýlega komið heim. Halldór Stefán segir ferðina hafa tekist með ágætum.

Æfingaleikir í Ungverjalandi

„Í Ungverjalandi spiluðum við meðal annars þrjá leiki á móti liðum sem hafa verið í Evrópukeppni undanfarin ár. Mjög sterkir andstæðingar bæði frá Ungverjalandi og Tékklandi,“ segir Halldór Stefán sem útilokar ekki einn æfingaleik til viðbótar áður en flautað verður til leiks í Olísdeildinni. KA sækir Gróttu heim í fyrstu umferð laugardaginn 7. september.

Leikmenn KA verjast aukakasti Arons Pálmarssonar á síðustu leiktíð. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Á ágætum stað

„Annars erum við komnir á ágætis stað. Við höfum sloppið ágætlega við meiðsli sem að vilja oft koma upp í undirbúningnum. Nú þurfum við bara að klára að slípa okkur saman fyrir fyrsta leik,“ segir Halldór Stefán ennfremur.

Ég vona að félögin verði dugleg að auglýsa leikina í vetur, þá sérstaklega fyrstu umferðina sem hefst í næstu viku. Margir sem hafa verið að spyrja mig síðustu daga um hvenær þetta fer í gang og það hefur verið lítið í gangi hjá félögunum og HSÍ

Halldór Stefán tók við þjálfun KA fyrir rúmu ári. Spurður hvort hann hefði í ljósi reynslunnar af fyrsta árinu hafa breytt miklu í undirbúningi liðsins á milli ára sagði Halldór Stefán svo ekki vera.

Jens Bragi Bergþórsson, línumaður KA og U18 ára landsliðsins. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Nýttum sumarið

„Vissulega munar það heilum helling að þekkja leikmannahópinn mun betur og þurfa því minna að prófa sig áfram. Einnig að hafa fengið sumarið til að vinna með smáatriði í leik drengjanna. Auðvitað þekki ég síðan deildina betur eftir eitt ár og hef myndað mér betri skoðun á því hvað við þurfum að bæta í okkar leik,“ segir Halldór Stefán sem þjálfaði í sjö ár í Noregi áður en hann kom til Akureyrar.

Leikjadagskrá Olísdeilda.

Þrjú ný andlit

„Við fengum Bjarna Ófeig inn og þegar hann verður klár held ég að hann eigi eftir að reynast okkur drjúgur í vetur. Sama gildir um Kamil Petryc sem að á að fylla það skarð sem að Ólafur Gústafsson skildi eftir sig í hjarta varnarinnar.

Marcus Rätte er ungur eistneskur leikmaður sem hefur komið okkur skemmtilega á óvart og stóð sig til að mynda mjög vel á Opna Norðlenska mótinu.

Ungu strákarnir okkar [Dagur Árni Heimisson, Jens Bragi Bergþórsson, Magnús Dagur Jónatansson] hafa fengið dýrmæta reynslu með U-18 ára landsliðinu í sumar sem að eflir þá fyrir komandi átök.

Andri Snær Stefánssoner mættur til leiks með karlaliði KA. Hann náði framúrskarandi árangri með KA/Þór. Ljósmynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Andri Snær og Haraldur

Síðan höfum við auðvitað mikið af uppöldum KA strákum í liðinu sem að skipta okkur auðvitað öllu máli og við ætlum að reyna að fara þetta svolítið á stemningunni og gleðinni í vetur,“ segir Halldór Stefán sem hefur fengið nýjan mann, Andra Snæ Stefánsson, í brúnna með sér í stað Guðlaugs Arnarssonar.

„Andri Snær er hrikalega jákvæður og gaman að vinna með honum. Síðast enn ekki síst munar auðvitað um minna að fá Harald Bolla [Heimisson] inn í liðsstjórahlutverkið. Hann er alveg einstakur karakter og heldur alltaf uppi gleði og stemningu í liðinu.“

Viljum meira

Spurður um markmið KA fyrir tímabilið svaraði Halldór Stefán. „Við vorum með sjötta sætið ásamt því að komast inn í úrslitahelgina í bikarnum sem okkar stóru markmið í fyrra. Hvorugu takmarkinu náðum við og þrátt fyrir að við hefðum verið ágætlega sáttir með að komast í úrslitakeppnina þá viljum við meira og höfum mikinn áhuga á því að horfa ofar á töfluna í vetur,“ segir Halldór Stefán sem að lokum vill koma á framfæri hvatningu til félaganna nú þegar keppnistímabilið er að bresta á.

Líf og fjör í KA-heimilinu á síðasta vetri. Haraldur Bolli í aðalhlutverki. Mynd/Egill Bjarni Friðjónsson

Þurfum að rífa okkur í gang

Ég vona að félögin verði dugleg að auglýsa leikina í vetur, þá sérstaklega fyrstu umferðina sem hefst í næstu viku. Margir sem hafa verið að spyrja mig síðustu daga um hvenær þetta fer í gang og það hefur verið lítið í gangi hjá félögunum og HSÍ að auglýsa þetta. Við þurfum að rífa okkur í gang og byrja að draga fólkið á völlinn til þess erum við að þessu,“ segir Halldór Stefán Haraldsson þjálfari karlaliðs KA ákveðinn.

Helstu breytingar:
Komnir: Bjarni Ófeigur Valdimarsson, Kamil Pedryc, Marcus Rätte.
Farnir: Kristján Gunnþórsson, Leó Friðriksson, Ólafur Gústafsson, Skarphéðinn Ívar Einarsson.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -