- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hrærður yfir sigrinum, stelpunum og öllum stuðningnum

Sigurður Bragason þjálfari ÍBV átti erfitt með að dylja tilfinningar sínar þegar flautað var til leiksloka í Laugardalshöll í dag. Mynd/Kristján Orri Jóhannsson
- Auglýsing -

Sigurður Bragason þjálfari ÍBV átti erfitt með að dylja tilfinningar sínar eftir sigur ÍBV í Poweradebikarnum í handknattleik kvenna í Laugardalshöll í dag þegar ÍBV lagði Val, 31:29. Fyrsti titillinn hans sem aðalþjálfara var í höfn eftir að á honum höfðu staðið öll spjót undanfarna daga.


„Ég er fyrst og fremst glaður og stoltur með stelpurnar eftir þennan leik auk þess að vera svo hrærður yfir þeim mikla stuðningi sem við fengum frá þessum yndislegu stuðningsmönnum okkar að þessu sinni. Tilfinningarnar eru ríkar, eins og alltaf þegar maður vinnur eitthvað en kannski eru þær ennþá sætari að þessu sinni. Ég var loksins að vinna minn fyrsta stóra titil sem þjálfari og brjóta þar með ákveðinn ís,“ sagði Sigurður þegar handbolti.is hitti hann stuttlega að máli þar sem hann var staddur inn í hafi stuðningsmanna ÍBV í Laugardalshöll rétt áður en hann gekk með sveit sinni upp á verðlaunapallinn og tók við fyrsta bikarmeistaratitli ÍBV í kvennaflokki í 19 ár.


„Ég gæti ekki verið stoltari af liðinu og öllum þeim sem að því standa en á þessari stundu. Fyrir leikinn sögðu margir við mig að nú væri kominn tími til þess að ég héldi ró minni og yfirvegun á hverju sem myndi ganga,“ sagði Sigurður sem viðurkenndi að honum hafi ekki alveg staðið á sama eftir 20 mínútna leik þegar Marta Wawrzykowska markvörður var útilokuð frá frekari þátttöku eftir meint leikbrot.

Nálgaðist vonda Sigga á tímabili

„Ég vandaði mig eins og ég gat í þessum leik en ég skal alveg viðurkenna að ég nálgaðist vonda Sigga á tímabili. Ég var alveg að missa mig en þá ákvað ég að anda djúpt. Í hálfleik þá fór ég yfir dóminn yfir Mörtu og mér fannst hann réttur. Þar með var ekkert annað að gera en að halda áfram og vinna úr stöðunni.

Ólöf Maren er lítt reyndur markvörður en hún kom sterk til leiks. Það ásamt karakternum í stelpunum innsiglaði sigurinn,“ sagði Sigurður Bragason þjálfari bikarmeistara ÍBV í samtali við handbolta.is í Laugardalshöll í dag.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -