Meðlimir Sérsveitarinnar, stuðningsmannasveit íslensku landsliðanna í handknattleik, hafa líkt og aðrir íslenskir stuðningsmenn ekki fengið neina miða á leiki karlalandsliðsins fyrir úrslitahelgina á Evrópumótinu í Herning í Danmörku. Handknattleikssamband Íslands reynir nú hvað það getur að útvega Sérsveitinni að minnsta kosti nokkra miða.
„Nei, ekki ennþá. HSÍ er að vinna hörðum höndum að því að redda okkur miðum. Ég veit að þau eru að leggja sig öll fram,“ segir Sonja Steinarsdóttir, einn af forsprökkum Sérsveitarinnar, í samtali við handbolta.is, spurð hvort hafi tekist að verða þeim úti um miða.
Engar hópferðir til Herning – ekkert laust af miðum
Ísland mætir heimamönnum í Danmörku annað kvöld og spilar svo annað hvort úrslitaleik eða leikinn um bronsverðlaun á sunnudag.
„Við reyndum að hafa samband við sænsku stuðningsmennina og króatíska stuðningsmenn, það voru bara svartamarkaðsmiðar í boði þeim megin. Við vorum ekki alveg að fara að þora því. En sænsku stuðningsmennirnir virðast ætla að mæta og styðja Ísland,“ segir Sonja.
Galið að mótið sé svona upp sett
Hvað finnst þér um að Ísland fái ekki fleiri miða?
„Þetta er náttúrlega bara skandall af EHF að geyma ekki fjögur horn fyrir liðin sem komast áfram. Fyrir þær þjóðir sem geta ekki sagt til um hvort þær fari mögulega í úrslitakeppni eða ekki þá skil ég mjög vel að það sé ekki til fjárhagslegt bolmagn hjá HSÍ eins og staðan er núna til þess að borga 2.000 miða vegna einhvers ef og kannski.
En þetta er náttúrlega galið að mótið sé svona upp sett. Oft eru skilin eftir hornin í stúkunum. Þá hefðum við alveg getað farið út með þrjár flugvélar, við hefðum léttilega fyllt þrjár flugvélar. Þannig að þetta er galið fyrirkomulag og okkur finnst þetta mjög leiðinlegt,“ segir hún.
Rosalega sárt ef við komumst ekki
Fjölskyldur leikmanna fá miða á úrslitahelgina og kveðst Sonja veita því fullan skilning. Það breyti því þó ekki að meðlimum Sérsveitarinnar muni sárna það mjög fái þeir ekki tækifæri til þess að styðja við bakið á íslenska liðinu á stærsta sviði Evrópumótsins.
„Að sjálfsögðu eiga fjölskyldur leikmanna forgang á miða og ég skil það bara ósköp vel. En það er rosalega sárt ef við komumst ekki. Ég verð nú að viðurkenna það. Við erum búin að fylgja báðum landsliðunum okkar á stórmót frá 2019 og það yrði sárt að fá ekki að upplifa að vera í höllinni.
Að raunverulega styðja strákana og reyna að stýra þessum fáu Íslendingum í að hvetja strákana okkar. Þeir þurfa stuðninginn og við teljum okkur vera ágætlega í stakk búin til þess að geta allavega gert eitthvað þó að við séum á móti mörgum þúsundum Dana,“ segir hún.
Sonja og aðrir meðlimir Sérsveitarinnar bíða nú fregna af því hvort HSÍ reynist unnt að verða þeim úti um einhverja miða.
„Já, ég veit að HSÍ er að vinna hörðum höndum að því. Þau langar að hafa okkur með,“ segir Sonja Steinarsdóttir að endingu í samtali við handbolta.is.


