- Auglýsing -
- Auglýsing -

Hundalógík og eldsúr jólaepli

Ungmennalið Vals heldur áfram að gera það gott í Grill 66-deildinni. Mynd/Valur
- Auglýsing -

Í hádeginu tilkynnti heilbrigðisráðherra að íþróttaæfingar fullorðinna, með og án snertingar, í greinum innan ÍSÍ í efstu deildum, verður heimiluð frá og með næsta fimmtudegi. Mig rak í rogastans að heimila ætti aðeins æfingar hjá liðum í efstu deild. Ég hreinlega trúði ekki mínum eigin eyrum. Ruglaðist í ríminu og fór dagavilt um stund. Hafði svo samband við kunningja til að kanna hvort hann hefði sama skilning á þesum fregnum og ég.

Það fór ekki á milli mála hjá honum. Þeir sem æfa með liðum í neðri deildum verða að bíta í það eldsúra jólaepli að hlaupa áfram út í kuldanum og hálkunni og æfa í gegnum zoom heima í stofu.

Ungmennum á aldrinum 16-20 ára sem ekki eru í afrekshópum, sem er yfirgnæfandi meirihluti, er hreinlega gefinn fingurinn með þessari ákvörðun. Um er að ræða viðkvæmasta hópinn þar sem brottfallið er mest og á hátíðarstundum er talað um að hættur leynist á hverju horni, nánast í hverju spori.

Ákvörðunin um að skilja ungmenni, 16-20 ára, eftir er óskiljanleg. Sama má segja um þá sem æfa með félögum sem ekki eru í efstu deild, eins og til dæmis í handbolta. Metnaður þeirra er í flestum tilfellum ekkert minni en þeirra sem æfa í efstu deild. Það geta ekki allir eða vilja ekki allir vera afreksmenn þótt þeir stundi íþróttir af alvöru.

Hér er á ferðinni sannkölluð hundalógík sem getur ekki, og má ekki verða að veruleika. Ráðherra má bera gæfu til þessa vanda betur til verka en þetta. Má e.t.v. segja að betur sé heima setið en af stað farið?

Ef þessi hundalógík verður látin standa er það enn eitt dæmið um máttleysi stjórnenda ÍSÍ og hversu vonlaust klór þeirra er á bak við tjöldin. Starf sem þeir stæra sig af að vinna fjarri kastljósi fjölmiðla enda svo mikilvægt að það er jafnvel yfir almenning hafið.

Meðan hafa örfáir forystumenn sérsambanda reynt að klóra í bakkann. Skiljanlega er lítið á þá hlustað þar sem þeirra forystufólk er raddlaust og hugmyndasnautt með öllu.

Forysta ÍSÍ opinberaði sig í haust með því að hafa ekkert fram að færa þegar faraldurinn brast á aftur eftir svikalogn í sumar. Það var ekki notað til þess að setja upp áætlun hvernig bregðast ætti við ef eldur gysi upp á nýjan leik.

Í dag kristallast betur máttleysi íþróttaforystunnar til að koma þeim til varnar sem hallast standa innan hreyfingarinnar. Ungmennanna okkar. Þau eru enn einu sinni hunsuð og boðið upp á hundlógík og eldsúr jólaepli.

Ívar Benediktsson, ivar@handbolti.is

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -