„Ég er hundsvekktur með úrslitin og það líka að hafa ekki fengið vítakast í lokin. En ætli að maður verði ekki að horfa á síðustu sókn okkar aftur áður en maður fellir endanlegan dóm,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkings í samtali við handbolta.is eftir eins marks tap Víkinga fyrir Fjölni, 25:24, í þriðja leik liðanna í umspili Olísdeildar karla í handknattleik. Leikið var á heimavelli Víkinga í Safamýri. Þar með er staðan, 2:1, fyrir Víkinga í leikjum talið. Vinna þarf þrjá leiki til þess að fara með sigur úr býtum í umspilinu.
Jón Gunnlaugur vísar að ofan til þess að Jóhann Reynir Gunnlaugsson leikmaður Víkings var stöðvaður af varnarmönnum Fjölnis á síðustu sekúndum leiksins. Víkingar fengu aðeins aukakast sem nýttist þeim ekki.
„Mér fannst dómararnir taka af okkur lokaskotið. Það er brotið á Jóhanni Reyni og það harkalega að dómararnir vísa leikmannni Fjölnis af leikvelli. Það er merki um ólöglegt brot.
Vorum komnir í góða stöðu
Eitt vítakast til eða frá var ekki stóra málið. Við vorum komnir í góða stöðu fimm mínútum fyrir leikslok, þriggja marka forskot, 24:21. Þá hættu menn að sækja á markið og byrjuðu að sækja til hliðar,“ sagði Jón Gunnlaugur sem var ekkert síður vonsvikinn með sína menn en dómgæsluna í lokin.
Erum í góðri stöðu
Víkingur hefur ennþá yfirhöndina í einvígi liðanna, eru með tvo vinninga gegn einum Fjölnismanna.
„Við erum ennþá í góðri stöðu og verðum bara að gíra okkur vel inn í næsta leik. Ég hef fulla trú á að það verði rífandi góð stemning í Dalhúsum á fimmtudaginn eins og var hér hjá okkur í dag,“ sagði Jón Gunnlaugur Viggósson þjálfari Víkings í samtali við handbolta.is í Safamýri í dag.