Hveitibrauðsdögum heimsmeistara Dana í handknattleik karla lauk í kvöld þegar þeir töpuðu fyrir Norður-Makedóníu, 33:29, í undankeppni Evrópumótsins í handknattleik í Skopje. Norður-Makedóníumenn sem léku í fyrsta skipti undir stjórn hins nýja landsliðsþjálfara, Kiril Lazarov sem jafnframt leikur með liðinu, voru með tögl og hagldir í leiknum frá upphafi til enda. Danir náðu aldrei að sýna sitt rétta andlit og hefðu í raun getað tapað með meiri mun ef þeim hefði ekki lánast að skora tvö síðustu mörk leiksins.
Danir höfðu leikið þrettán leiki í röð án taps þegar kom að viðureigninni í Skopje. Síðast tapaði danska landsliðið fyrir Íslendingum, 31:30, á EM í Svíþjóð í janúar á síðasta ári. Um leið er þetta stærsta tap Dana í alþjóðlegum keppnisleik síðan þeir biðu lægri hlut fyrir Frökkum í úrslitaleik EM í Danmörku 2014, 41:32.
Danir voru einu sinni yfir í leiknum í Skopje. Það var í stöðunni 1:0. Norður-Makedóníumenn voru fjórum mörkum yfir, 17:13, að loknum fyrri hálfleik. Þeim tókst að kom í veg fyrir áhlaup danska liðsins í upphafi síðari hálfleiks og voru enn fjórum mörkum yfir að loknum 40 mínútna leik, 20:16.
Nikolaj Jacobsen, landsliðsþjálfari Dana, var þungur á brún í samtali við TV2 eftir leikinn og sagði að undirbúningur danska landsliðsins síðustu daga hafa ekki skilað sér í leiknum.
Dejan Manaskov og Filip Kuzmanovski skoruðu fimm mörk hvor fyrir landslið Norður-Makdóníu. Lazarov landsliðsþjálfari skoraði fjögur mörk. Mikkel Hansen var markahæstur Dana með 11 mörk. Mads Mensah var næstur með fjögur mörk.
Danir og Norður-Makedóníumenn leiða saman hesta sína öðru sinni í Danmörku á sunnudag.
Norður-Makedónía er þar með efst í 7. riðli með sex stig eftir þrjá leiki. Danir eru með fjögur stig, Sviss tvö stig eftir sigur á Finnum í dag, 32:19. Finnnska landsliðið rekur lestina án stiga að loknum þremur leikjum.
Hér má sjá eitt fjögurra marka Lazarov í leiknum.