„Sautján mörk duga ekki til þess að vinna handboltaleik. Frammistaðan í sóknarleiknum var ekki boðlega, hvorki fyrir íslenska landsliðið né okkur sjálfa,“ sagði Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is eftir tapið fyrir Tékkum, 22:17, í Brno í kvöld.
Takturinn slæmur frá byrjun
„Við verðum að líta inn á við og gera betur í síðari leiknum á sunnudaginn. Takturinn í sóknarleiknum var slæmur frá upphafi og við framkvæmdum sóknarleikinn illa frá upphafi til loka leiks. Framundan er bara að líta inn á við, greina leikinn og skoða hvað við getum gert betur áður en mætt verður til leiks í Laugardalshöllinni á sunnudaginn.
Hlakkar til sunnudagsins
„Ég hlakka til leiksins á sunnudaginn og sýna fólki úr hverju við erum gerðir og sýna alvöru karakter. Við börðumst frá upphafi til enda í kvöld en það nægði svo sannarlega ekki vegna þess að gæðin voru ekki frambærileg,“ sagði Janus Daði Smárason landsliðsmaður í handknattleik í samtali við handbolta.is í Brno í kvöld.