„Sveiflurnar á milli leikja eru lygilegar og hreint ótrúlegt hversu brútalt þetta sport getur verið,“ sagði Andri Snær Stefánsson þjálfari KA/Þórs eftir að liðið tapaði fyrir Stjörnunni með 11 marka mun í dag í oddaleik um sæti í undanúrslitum úrslitakeppni Olísdeildar karla. KA/Þór vann viðureign liðanna á síðasta fimmtudag með 16 marka mun, 34:18.
Sjálfstraustið meira hjá Stjörnunni
„Í heimaleiknum á fimmtudaginn lékum við okkar besta leik á tímabilinu. Segja má að það hafi allt hafi gengið upp hjá okkur. Vörnin, markvarsla, sóknarleikur og sjálfstraust var algjörlega með okkur. Í dag snerust hlutverkin alveg við. Leikmenn urðu litlir í sér meðan sjálfstraustið var Stjörnumegin. Stjarnan vann þar með fyllilega sanngjarnan sigur að þessu sinni,“ sagði Andri Snær ennfremur þegar handbolti.is hitt hann eftir viðureignina í TM-höllinni.
Gekk sannarlega ekki upp
„Framan af vorum við alltaf að elta, vorum ekki langt á eftir. Í þau skipti sem við áttum möguleika á að jafna metin snerust vopnin í höndum okkar. Því miður þá lentum við í eltingaleik og þurftum að fara í tilraunastarfssemi sem stundum getur gengið upp en gerði það svo sannarlega ekki að þessu sinni,“ sagði Andri Snær Stefánsson og var með það rokinn af stað norður til Akureyrar með liði sínu sem nú er komið í sumarleyfi, a.m.k. frá keppni á Íslandsmótinu.