Króatíska handknattleikssambandið hefur úrskurðað Marko Bezjak leikmann RK Nexe í eins árs keppnisbann fyrir að missa stjórn á sér í kappleik og m.a. ráðast á eftirlitsdómara í viðureign RK Nexe og Zagreb í 7. apríl.
Veselin Vujovic, sem var í gær sagt upp starfi þjálfara RK Nexe, var úrskurðaður í þriggja mánaða bann. Andraž Velkavrh, samherji Bezjak, hlaut fjögurra leikja bann.
Upp úr sauð í viðureign Zagreb og RK Nexe, sem þá voru tvö efstu lið króatísku úrvalsdeildarinnar. Bezjak missti stjórn á sér í hita leiksins, atyrti dómarana og var vikið af leikvelli. Þá sauð upp úr á leikvellinum eins og sjá má á myndskeiðinu hér fyrir neðan. Þar ryður Bezjak m.a. Ante Josic eftirlitsmanni um koll á leið sinni út af leikvellinum.
Vujovic þáverandi þjálfar Nexe er þekktur skaphundur. Hann hafði enga stjórn á skoðunum sínum og jós úr skálum reiði sinnar.
Vujovic er þar með kominn í leikbann og ekki í fyrsta sinn á ferlinum.
Staðan var 16:9 fyrir Zagreb þegar upp úr sauð á leikvellinum. Leiknum var ekki framhaldið. Í úrskurði króatíska handknattleikssambandsins er Zagreb úrskurðaður sigur í leiknum, 10:0.
Bezjak gekk til liðs RK Nexe á síðasta sumri eftir 10 ára veru hjá þýska liðinu SC Magdeburg sem m.a. lauk með sigri í Meistaradeild Evrópu.