ÍBV hefur verið dæmdur sigur á Haukum í viðureign liðanna í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins í handknattleik karla. Vísir segir frá að dómstóll HSÍ hafi komist að þessari niðurstöðu og að ÍBV vinni leikinn, 10:0. Haukar hafa þrjá daga til þess að ákveða hvort þeir áfrýja dómnum og mun það vera ætlan þeirra samkvæmt fyrrgreindri frétt Vísis.
ÍBV er þar með komið í átta liða úrslit Poweradebikarsins. Dregið verður í hádeginu í dag.
ÍBV kærði framkvæmd leiks Hauka og ÍBV í 16-liða úrslitum Poweradebikarsins sem fram fór fyrir hálfri annarri viku. Ástæða kærunnar var sú að Haukar breyttu leikskýrslu eftir að frestur til þess að skila inn skýrslu var runninn út. Hart hefur gengið eftir því á þessu tímabili að breytingar séu ekki gerðar á skýrslum þegar innan við klukkutími er til að flautað verður til leiks.
Haukar unnu leikinn, 37:29, en töpuðu 10:0 eða eins og stendur í dómsorði: „Kærði, Knattspyrnufélagið Haukar ehf., telst hafa tapað leik við kæranda, ÍBV Íþróttafélag, sem
fram fór í Powerade bikarkeppni karla, meistararflokki, þann 17. nóvember 2024, með markatölunni 0-10.“
Hér má lesa dóminn
Fréttin var uppfærð eftir að handbolti.is fékk dóminn í hendur.