ÍBV sat yfir í fyrstu umferð Evrópubikarkeppni karla í handknattleik sem fram fór í síðasta mánuði. Í dag og á morgun mætir ÍBV HB Red Boys Differdange, meistaraliðinu í Lúxemborg. Leikirnir hefjast klukkan 14.30 báða dagana og fara fram í Centre Sportif Niederkorn í Lúxemborg.
HB Red Boys Differdange er eitt þriggja liða sem hefur átta stig eftir fimm umferðir í átta liða úrvalsdeild karla í Lúxemborg.
HB Red Boys Differdange sat yfir í fyrstu umferð keppninnar í haust eins og ÍBV.
Á síðasta ári komst HB Red Boys Differdange í 32 liða úrslit eftir að hafa lagt félagslið frá Vilnius í Litáen í fyrstu umferð, 65:50, samanlagt í tveimur leikjum.
Í annarri umferð féll HB Red Boys Differdange úr leik eftir tvo hörkuleiki við Anorthosis Famagusta frá Kýpur, samanlagt 48:46, í leikjum sem fóru fram á Kýpur og í Lúxemborg.
Til fróðleiks þá lagði Anorthosis Famagusta lið Hauka á sannfærandi hátt í tveimur leikjum í umferðinni á undan.
Af 19 leikmönnum liðsins á skrá þá eru níu frá Lúxemborg, fimm Frakkar, þrír Króatar, einn Portúgali og einn Tékki.
Dómarar beggja leikja verða Premysl Fukala og Radek Mohyla frá Tékklandi. Jamila Boulhimsse frá Frakklandi verður eftirlitsmaður.
Handbolti.is hefur ekki upplýsingar um hvort hægt verði að fylgjast með útsendingu frá leikjunum. Hafi einhver vitneskju um það má senda póst á [email protected] eða í gegn skilaboðaskjóðu Facebooksíðu handbolti.is
Hér fyrir neðan er upprifjun á heimsókn HB Red Boys til Íslands fyrir um 45 árum. Síðan hefur mikið vatn runnið til sjávar.