ÍBV skoraði fjögur síðustu mörk leiksins við KA/Þór á heimavelli í kvöld og vann mikilvægan sigur, 26:24, í Olísdeild kvenna. Íslandsmeistararnir skoruðu ekki mark síðustu sjö mínútur leiksins. Sunna Jónsdóttir fór hamförum í leiknum, jafnt í vörn sem sókn, og skoraði þrjú af síðustu fjórum mörkum ÍBV-liðsins og alls 10 í leiknum.
KA/Þór er þar með áfram í þriðja sæti með 19 stig, þremur stigum á eftir Val, að loknum 15 leikjum. ÍBV er ennfremur áfram á sínum stað, fimmta sæti, en hefur nú 16 stig eftir að 13 leiki. Eyjakonur nálgast þar með óðum liðin í efri hluta deildarinnar.
KA/Þór byrjaði leikinn betur en í jafnri stöðu, 6:6, eftir 11 mínútur skoraði ÍBV þrjú mörk í röð. KA/Þór svaraði um hæl með fimm mörkum í röð og komst yfir, 11:9, á 21. mínútu. Staðan var jöfn í hálfleik, 14:14.
ÍBV fór vel af stað í síðari hálfleik og náði um skeið þriggja marka forskoti áður en KA/Þór svaraði með góðu liðlega 20 mínútna áhlaupi sem skilaði liðinu tveggja marka forskoti, 24:22, og að því er virtist frumkvæði í leiknum fyrir endasprettinn. Vopnin snerust hinsvegar í höndum KA/Þórs liðsins. ÍBV gekk á lagið og skoraði fjögur síðust mörkin. Þau hefðu getað orðið fimm en Matea Lonac, markvörður KA/Þórs, varði vítakast Birnu Berg Haraldsdóttur eftir að leiktíminn var úti.
Skarð var fyrir skildi hjá KA/Þór því Martha Hermannsdóttir átti ekki heimangengt. Kom það m.a. niður á nýtingu vítakasta en þrjú slík fóru forgörðum hjá Akureyrarliðinu og munar um minna í jöfnum leik.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdótti 10, Harpa Valey Gylfadóttir 5, Elísa Elíasdóttir 4, Karolina Olszowa 3, Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir 3/1, Linda Cardell 1.
Varin skot: Marta Wawrzykowska 16/1, 40%.
Mörk KA/Þórs: Rut Arnfjörð Jónsdóttir 8/2, Ásdís Guðmundsdóttir 5/2, Aldís Ásta Heimisdóttir 4, Hulda Bryndís Tryggvadóttir 2, Rakel Sara Elvarsdóttir 2, Unnur Ómarsdóttir 2.
Varin skot: Matea Lonac 11/1, 39,3% – Sunna Guðrún Pétursdóttir 4/1, 33,3%.
Öll tölfræði leiksins er hjá HBStatz.
Stöðu og næstu leiki í Olísdeild kvenna er að finna hér.
Handbolti.is fylgdist með leiknum í stöðu- og textauppfærslu hér fyrir neðan.