Bikarmeistarar ÍBV urðu fyrir áfalli á laugardaginn í síðari leiknum við portúgalska liðið Colegio de Gaia í Evrópubikarkeppninni í handknattleik. Átta mínútum fyrir leikslok sleit Britney Cots hásin á vinstri fæti. Reikna má með hálfs árs fjarveru hennar frá handknattleiksvellinum. Cots kom til landsins með ÍBV-liðinu seint í gærkvöld með gifs um vinstri fótinn.
Sigurður Bragason þjálfari ÍBV staðfesti ótíðindin við handbolta.is seint í gærkvöld þegar ÍBV liðið kom til landsins með beinu flugi Play frá Porto. Meiðsli Britney skyggðu skiljanlega á ánægjuna með árangurinn í leikjunum Colegio de Gaia sem ÍBV vann samanlagt, 53:50, og tekur sæti í 32-liða úrslitum. Dregið verður á morgun.
Britney gekk til liðs við ÍBV í sumar. Hún er að hefja sitt fimmta keppnistímabil hér á landi en áður hefur Britney, sem er landsliðskona Senegal, leikið með FH og Stjörnunni. Meiðslin koma ennfremur í veg fyrir að hún eigi möguleika á að blanda sér í keppnishóp Senegal á HM kvenna undir lok ársins. Britney lék með landsliðið Senegal í Afríkukeppninni þegar liðið tryggði sér HM-farseðilinn.
Hanna er fjarverandi
Auk Britney er Hrafnhildur Hanna Þrastarson á sjúkralista ÍBV-liðsins. Óvíst er að Hanna leiki með ÍBV á árinu en hlé verður gert á keppni í Olísdeildinni upp úr miðjum nóvember vegna þátttöku kvennalandsliðsins á heimsmeistaramótinu sem hefst 29. nóvember.