ÍR komst upp að hlið Gróttu í fjórða til fimmta sæti í Grill 66-deild kvenna með fimm marka sigri á Víkingi í hörkuleik í Austurbergi, 29:24, eftir að hafa verið þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 17:14. Þetta var fimmti sigurleikur ÍR-kvenna í röð.
ÍR-ingar hafa þar með náð 12 stigum eins og Grótta eftir 10 leiki og hefur annan til þriðja besta árangur þeirra liða sem eiga möguleika á að komast upp í Olísdeildina í vor. Afturelding er tveimur stigum á undan eftir sigur á Gróttu að Varmá, 21:20, eins og fjallað er um annarstaðar á handbolti.is. Fram U og Valur U eru fyrir ofan en eiga ekki möguleika á að fara upp úr deildinni.
Talsverður hraði var í fyrri hálfleik í Austurbergi í kvöld. ÍR-liðið skoraði fjögur af fyrstu fimm mörkum leiksins og alls voru skoruð 11 mörk á fyrstu sjö mínútum. Það var engu líkara en leikmenn væru í akkorði við að ljúka leiknum. Þegar frá leið róuðust þeir aðeins en áfram var skorað drjúgt þótt markverðir beggja liða væru vel með á nótunum, Karen Ösp Guðbjartsdóttir hjá ÍR og ekki síður Emelía Dögg Sigmarsdóttir hjá Víkingi.
Víkingi tókst að minnka muninn í eitt mark í að minnsta kosti tvígang í fyrri hálfleik en vantaði alltaf herslumun upp á að jafna metin.
ÍR-ingar voru áfram sterkari í síðari hálfleik. Heldur dró úr hraðanum frá því sem var í fyrri hálfleik. Sem fyrr vantaði aðeins upp á hjá Víkingi þegar liðið var komið nærri hlið andstæðingsins. Heimaliðið var lengst af með tveggja til fimm marka forskot. Segja má að síðasta stundarfjórðunginn hafi sigur ÍR ekki verið í hættu.
Sem fyrr segir var Emelía Dögg góð í marki Víkings og alveg hreint ótrúlegt að sjá hversu vel henni gekk miðað við varnarleikinn sem samherjar hennar buðu upp á. Emelía Dögg varði 19 skot, þar af tvö vítaköst. Arna Þyrí Ólafsdóttir og Auður Brynja Sölvadóttir voru öflugastar af sóknarmönnum Víkings.
Hjá ÍR varði Karen Ösp vel á köflum og alls 12 skot, þar af eitt vítakast. Ólöf Marín Hlynsdóttir átti fínan leik og geigaði aðeins á tveimur skotum. Eins lék Sylvía Jónsdóttir vel. Línukonan Stefanía Ósk Hafberg var erfið viðeignar, ekki síst í fyrri hálfleik.
Mörk ÍR: Ólöf Marín Hlynsdóttir 9, Stefanía Ósk Hafberg 5, Hildur María Leifsdóttir 4, Adda Sólbjört Högnadóttir 3, Margrét Katrín Jónsdóttir 3, Sylvía Jónsdóttir 2, Anna María Aðalsteinsdóttir 2, Guðrún Maryam Rayadh 1.
Varin skot: Karen Ösp Guðbjartsdóttir 12/1.
Mörk Víkings: Auður Brynja Sölvadóttir 9, Arna Þyrí Ólafsdóttir 8, Steinunn Birta Haraldsdóttir 2, Ester Inga Ögmundsdóttir 2, Helga Lúðvíka Hallgrímsdóttir 2, Viktoria McDonald 1.
Varin skot: Emelía Dögg Sigmarsdóttir 19/2.