Íslendingar gerðu það gott í dönsku bikarkeppninni í karlaflokki í kvöld þegar lið þeirra fóru áfram í átta liða úrslit. Guðmundur Þórður Guðmundsson stýrði sínum mönnum í Fredericia HK til sigurs í heimsókn til TMS Ringsted, 27:23. Elvar Ásgeirsson og Ágúst Elí Björgvinsson tóku þátt í sigurleik Ribe-Esbjerg á útivelli á HC Odense-Herrer, 39:34.
Elvar skoraði þrjú mörk í leiknum og átti níu stoðsendingar. Hann virtist kunna vel við sig í Óðinsvéum. Ágúst Elí varði mark Ribe-Esbjerg í helming leiktímans og varði fimm skot, 25%.
Einar Þorsteinn Ólafsson var ekki leikmannahópi Fredericia HK í Ringsted í kvöld. Hann mun vera meiddur á öxl, eftir því sem handbolti.is kemst næst. Hversu alvarleg meiðslin er handbolta.is ekki ljóst.
Halldór Jóhann í eldlínunni
Áfram verður leikið í 16-liða úrslitum bikarkeppninnar á morgun og á sunnudag. Á morgun stýrir Halldór Jóhann Sigfússon leikmönnum Nordsjælland Håndbold í fyrsta sinn í opinberum kappleik á heimavelli gegn KIF Kolding. Halldór Jóhann tók við stjórnvölum hjá Sjálandsliðinu í sumar eftir ársveru á Jótlandi hjá TTH Holstebro.
Arnór mætir fyrri samherjum
Á sunnudaginn fá Arnór Atlason og lærisveinar hans í TTH Holstebro lið Aalborg Håndbold í heimsókn til Holstebro. Það er svo sannarlega hittingur að Arnór stýrir Holstebro-liðinu í fyrsta sinn gegn sínum gömlu félögum. Arnór hætti hjá Aalborg í vor eftir sjö ára dvöl, þar af í fimm ár sem aðstoðarþjálfari.
Dregið verður í átta liða úrslit á sunnudaginn.
Tengdar fréttir: