Elín Klara Þorkelsdóttir og liðsfélagar í IK Sävehof eru einar í efsta sæti sænsku úrvalsdeildarinnar eftir leiki kvöldsins. IK Sävehof vann Krisitanstad naumlega á heimavelli, 27:26, eftir góðan endasprett Kristianstad-liðsins.
Meistarar síðasta árs, Skara HF, sem Aldís Ásta Heimisdóttir og Lena Margrét Valdimarsdóttir leika með, færðist upp í þriðja sæti með 8 stig eins og Önnereds sem tapaði á heimavelli fyrir Skuru, 23:22.
Elín Klara skoraði fimm mörk, þar af tvö úr vítaköstum, í sigurleik IK Sävehof, á Kristianstad. Elín Klara átti auk þess eina stoðsendingu.
Berta Rut Harðardóttir skoraði eitt mark fyrir Kristianstad sem er í áttunda sæti deildarinnar.
Aldís Ásta skoraði tvö mörk og gaf átta stoðsendingar í sigurleik Skara á IF Hallby HK, 36:26, á heimavelli. Lena Magrét Valdimarsdóttir skoraði ekki mark fyrir Skara en gaf þrjár stoðsendingar.
Stöðuna í mörgum deildum evrópsks handknattleiks er að finna hér.





