Handknattleiksliðin Ribe-Esbjerg og Fredericia HK, sem Íslendingar tengjast, hófu keppni í dönsku úrvalsdeildinni með afar góðum sigrum í dag. Ribe-Esbjerg lagði Danmerkurmeistara GOG á heimavelli meistaranna, 29:26.
Úrslitin teljast óvænt, ekki síst í ljósi þess að GOG, þrátt fyrir nokkrar breytingar á leikmannahópi og þjálfarateymi, lagði Aalborg Håndbold í Meistarakeppninni í vikunni.
Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia HK unnu Bjerringbro/Silkeborg, 30:26, á heimavelli.
Bjerringbro/Silkeborg fékk mikinn liðsstyrk í sumar þegar landsliðsmaðurinn Rasmus Lauge gekk til liðs við félagið eftir vera víða um Evrópu, síðast hjá Veszprém í Ungverjalandi.
Fredericia HK var tveimur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 11:9.
Einar Þorsteinn Ólafsson lék ekki með Fredericia HK vegna axlarmeiðsla. Sebastian Frandsen markvörður Fredericia HK fór á kostum og varði 43% skota sem komu á mark hans.
Lauge náði sér lítt á strik. Hann átti fjórar stoðsendingar en öll sjö markskot hans fóru í súginn.
Ágúst Elí varði vítakast
Elvar Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Ribe-Esbjerg í sigrinum góða á GOG, 29:26. Staðan í hálfleik var 14:12, Ribe-Esbjerg í hag.
Elvar átti einnig tvær stoðsendingar. Ágúst Elí Björgvinsson varði eitt vítakast en kom lítið við sögu að öðru leyti þar sem kollegi hans, Svíinn Niklas Kraft, stóð undir nafni og var með 40% hlutfallsmarkvörslu.
Önnur úrslit í deildinni í dag:
Ringsted – SønderjyskE 29:28.
Kolding – Mors 29:29.
Skanderborg Aarhus – Lemvig 37:24.
Aalborg – Skjern 38:26.