Ekki voru margir íslenskir handknattleiksmenn sem komu við sögu í þýsku „Bundesligunni“ á árunum 1983-1988. Ástæðan var að Þjóðverjar breyttu reglum um fjölda útlendinga um sumarið 1983. Aðeins einn útlendingur mátti leika í hverju liði. Þetta ákvæði varð til að minnka ásókn þýskra liða í Íslendinga. Leikmenn frá Balkanskaganum (Júgóslavíu), Sovétríkjunum, Tékkóslóvakíu, Póllandi, Ungverjalandi og Rúmeníu áttu greiðari aðgang.
Það var fámennur hópur Íslendinga, en góðmennur sem herjaði á völlum Þýskalands. Leikmenn sem voru vinsælir og í miklum metum. Aðeins þrír Íslendingar voru í „Bundesligunni“ tímabilið 1983-1984; Sigurður Valur Sveinsson, Lemgo, Alfreð Gíslason, Essen og Jóhann Ingi Gunnarsson, þjálfari Kiel. Bjarni Guðmundsson lék með 2. deildarliðinu Wanne Eickel.
Við segjum nú frá þessum leikmönnum og einnig Atla Hilmarssyni, Kristjáni Arasyni og Páli Ólafssyni, sem voru á ferðinni. Hér er um að ræða leikmenn sem settu svip sinn á handknattleikinn í Þýskalandi; voru í miklum metum, urðu meistarar, bikarmeistarar og markakóngar. Geysilega vinsælir leikmenn og átrúnaðargoð.
Við köllum fyrst Sigurð Val Sveinsson fram á sviðið, en hann fór frá Nettelstedt til Lemgo fyrir keppnistímabilið 1983-1984.
Sigurður sá vinsælasti!
Sigurður Valur er skrifaður í sögubækur Lemgo, sem skemmtilegasti leikmaður liðsins frá upphafi.
Lemgo er með herbúðir sínar í samnefndum háskólabæ í Norður Rín Vestfalíu, rétt við Minden (Dankersen) og Hameln. Héraðið hefur verið kallað Skotland Þýskalands, þar sem íbúar eru mjög sparsamir og horfa í aurinn. Þar búa rúmlega 40 þús. íbúar í Lemgo. Gamli bærinn er á meðal tíu fallegustu timburbæja Þýskalands. Heimavöllur Lemgo er Lipperlandshalle, sem tekur 5 þús. áhorfendur, en tók aðeins 950 áhorfendur þegar Sigurður hóf að leika með liðinu, en var komin í 2.000 áhorfendur þegar Sigurður fór frá Lemgo 1988.
Sigurður vann strax hug og hjörtu stuðningsmanna Lemgo, sem hrifust af fjölbreyttum skotstíl hans og krafti; einnig línusendingum og skemmtilegri framkomu á velli. Sigurður var mikill gleðigjafi, bæði innan sem utan vallar. Þess má geta til gamans að það eru enn myndir af Sigurði Val í hermannabúningi stórskotasveitar Þýskalands upp á veggjum á veitingastöðum í Lemgo.
Sigurður varð fjórði markahæsti leikmaður „Bundesligunnar“ á fyrsta keppnistímabili sínu með Lemgo, 159 mörk í 25 leikjum. Síðan varð hann markakóngur 1984-1985, skoraði 191/81 mark. Sigurður skoraði ekki nema 117 mörk 1985-1986, þar sem hann lék aðeins 14 leiki. Var frá í þrjá mánuði vegna meiðsla í október; krossbönd slitnuðu og missti Sigurður af HM í Sviss 1986.
Sigurður varð í þriðja sæti á markaskoraralistanum 1986-1987 og sjötta sæti 1987-1988. Hann skoraði alls 794 mörk í 121 leik. HSÍ kallaði á krafta Sigurðar Vals fyrir Ólympíuleikana í Seoul 1988 og svaraði hann kallinu með því að ganga til liðs við Val. Þegar á hólminn var komið, var Sigurður lítið notaður í leikjum landsliðsins í Seoul.
Þegar Sigurður fór á kostum með íslenska landsliðinu gegn Þýskalandi í B-keppninni í Frakklandi 1989, skoraði níu mörk í sigurleik, 23:21, fékk Sigurður skeyti frá gömlum samherjum hjá Lemgo, sem sáu glæsileik Sigurðar í beinni sjónvarpsútsendingu, sem í stóð: „Laglega gert, gamli!“
Jóhann Ingi þjálfari ársins
Það vakti mikla athygli í Vestur-Þýskalandi þegar Jóhann Ingi Gunnarsson gerðist þjálfari Kiel, en hann gekk frá eins árs samningi við félagið í apríl 1982. Jóhann Ingi var þá yngsti þjálfarinn, sem hafði stjórnað liði í „Bundesligunni“ – 28 ára. Margir reyndir þjálfarar í deildinni sögðu að Jóhann Ingi hafi gert mistök, að ráða sig til Kiel sem var á niðurleið. Annað hljóð heyrðist í herbúðum Kiel og voru leikmenn liðsins afar ánægðir með Jóhann Inga, sem kom með ferska vinda. Við munum rifja komu Jóhanns Inga til Kiel síðar, þegar við rifjum upp hvaða íslenskir þjálfarar hafa starfað í Þýskalandi. Jóhann Ingi gjörbreytti leikstíl liðsins, sem lék skemmtilegan handknattleik og hafnaði í óvænt í öðru sæti í deildinni, tveimur stigum á eftir Gummersbach.
Kiel reyndi að fá Kristján Arason, FH, til liðs við sig, en Kristján hafnaði boðinu þar sem hann ætlaði sér að ljúka námi í viðskiptafræði við Háskóla Íslands áður en hann færi út fyrir landsteinana til að leika handknattleik.
Spútniklið Jóhanns Inga gerði það gott. 1983-1984 hafnaði Kiel í fjórða sæti og síðan aftur í öðru sæti 1984-1985; einu stigi á eftir Gummersbach. Jóhann Ingi var kjörinn besti og vinsælasti þjálfarinn hjá Handball Magazin. Liðið varð í fimmta sæti 1985-1986; 10 stigum á eftir meisturum Essen, en þá fengu meistararnir Jóhann Inga til liðs við sig, til að taka við starfi Rúmenans Peter Ivanescu.
Alfreð Gíslason var í meistaraliði Essen og hann og Jóhann Ingi fögnuðu meistaratitli með liðinu keppnistímabilið 1986-1987.
Jóhann Ingi var leystur frá störfum hjá Essen 25. janúar, er liðið var í sjötta sæti í „Bundesligunni.“ Alfreð var óhress með þá ákvörðun stjórnar Essen, sem hafði ekki haldið rétt á spilunum. Ekki fengið leikmenn til að fylla skarð lykilmanna, sem voru farnir.
Alfreð vinsæll í Essen
Dankersen og Gummersbach höfðu fylgst með Alfreð Gíslasyni er hann lék í B-keppninni í Hollandi 1983. Þegar Petre Ivanescu, þjálfari Gummersbach vildi ólmur fá Alfreð. Þegar Ivanescu var ráðinn þjálfari Essen um vorið 1983 lagði hann mikla áherslu á við forráðamenn félagsins að þeir fengju Alfreð til liðsins. Það gekk eftir og skrifaði Alfreð undir tveggja ára samning við Essen í byrjun júní 1983. Jóhann Ingi veitti Alfreð aðstoð þegar hann gekk frá samningi sínum við Essen.
Essen varð í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Grosswallstadt 1984 og í þriðja sæti 1985, á eftir Gummersbach og Kiel. Alfreð var orðinn lykilmaður í vörn og sókn hjá Essen, þegar liðið varð Þýskalandsmeistari, skoraði 108 mörk í 24 leikjum. Leikmenn Essen tóku á móti meistaraskildinum eftir síðasta leik sinn í Gruge-höllinni í Essen, burstuðu leikmenn Kiel með 15 mörkum, 29:14. Alfreð varð þriðji Íslendingurinn til að verða meistari; endurtók afrek Axels Axelssonar og Ólafs H. Jónssonar með Dankersen 1977.
„Þetta er stórkostleg tilfinning. Það er gaman að vera Íslendingur í þýsku meistaraliði. Ég hef engan samanburð; hef aldrei orðið Íslandsmeistari,“ sagði Alfreð eftir leikinn.
Alfreð og félagar endurtóku leikinn 1987, er þeir fögnuðu sínum öðrum meistaratitli í Gruge-höllinni. Þá undir stjórn Jóhanns Inga Gunnarssonar.
Alfreð varð síðan bikarmeistari með Essen síðasta keppnistímabil hans hjá félaginu, 1987-1988. Essen lagði Massenheim í tveimur leikjum; fyrst 25:18 og síðan 28:21.
Essen kastaði aftur á móti Evrópumeistaratitlinum frá sér, þegar CSKA Moskva varð Evrópumeistari 1988 með fleiri mörkum skoruðum á útivelli. Liðið fagnaði sigri í Moskvu, 18:15, en tapaði í Essen 18:21. Essen var með leikinn í sínum höndum; með 8 marka forskot í leikhléi, 13:5. Undir lok leiksins köstuðu leikmenn Essen sigrinum frá sér, eftir að staðan var 21:16 þegar rúmar tvær mín. voru til leiksloka. Draumur Alfreðs um að verða fyrsti Íslendingurinn til að verða Evrópumeistari, rættist ekki!
Alfreð var á förum frá Essen; fór til Íslands til að leika með KR og taka þátt í lokaundirbúningi landsliðsins fyrir Ólympíuleikana í Seoul. Þar sem V-Þýskaland var ekki með á ÓL, var leikið í „Bundesligunni“ á sama tíma og leikarnir fóru fram. Það hefði þýtt það að Alfreð og aðrir leikmenn sem tóku þátt í ÓL gætu ekki tekið þátt í sex til átta leikjum.
Forráðamenn Essen reyndu allt til að halda Alfreð, sem var vinsælasti leikmaður Essen. Þeir buðu honum ævintýralegan samning. Var boðið þannig að hann fengi að vera eina viku í senn á Íslandi og tvær vikur í Essen. Ef Alfreð hefði tekið boðinu, hefði hann farið tíu flugferðir fram og til baka keppnistímabilið 1988-1989 í „Bundesligunni“.
Atli hafði ekki heppnina með sér
Atli Hilmarsson fór á ný til Þýskalands keppnistímabilið 1984-1985 og gerðist leikmaður með Bergkamen, sem féll. Það varð til þess að hann fór til Günzburg og var dvöl hans ekki skemmtileg hjá liðinu tímabilið 1985-1986. Atli meiddist illa, hásin slitnaði. Hann átti í stappi við forráðamenn félagsins vegna trygginga og launagreiðslu. Jóhann Ingi Gunnarsson veitti Atla aðstoð í þeirri baráttu. Atli lék ekki nema 15 leiki með Günsburg, sem féll. Atli fór einnig í mikla sprautumeðferð vegna kölkunar í öxl.
Jóhann Ingi var Atla til halds og trausts er hann gerði samning við Bayer Leverkusen og lék með liðinu í 2. deild 1986-1987.
Þess má geta að Atli hafði mikinn áhuga að fara til svissneska liðsins Grasshoppers áður en hann tók tilboði Leverkusen, en ekkert varð úr því þar sem hann fékk ekki dvalarleyfi í Sviss fyrir fjölskyldu hans.
Páll Ólafsson sá besti!
Páll Ólafsson hafnaði tilboði frá sænska liðinu Visby; valdi frekar Vestur-Þýskaland.
Axel Axelsson var ráðgjafi hans Páls Ólafssonar, Þrótti, þegar hann gerði eins árs samning við Dankersen í júní 1985. Páll var strax vinsæll og lék vel með Dankersen, en það dugði ekki til; liðið féll. Páll, sem skoraði 104/22 mörk, var vinsæll hjá stuðningsmönnum og kusu þeir hann leikmann ársins. Það dugði ekki til að Páll yrði áfram hjá liðinu. Dankersen hafði ákveðið að fá Júgóslavann Velibor Nenadic, fyrirliða Rauðu Stjörnunnar, til liðs við sig, og var þá ekki pláss fyrir Pál, þar sem aðeins einn útlendingur mátti vera í hverju liði.
Það var til þess að Axel hafði samband við Horst Bredemeier, þjálfara TuRU Düsseldorf, sem var þjálfari hans hjá Dankersen 1979-1981, til að kanna hvort hann hafði not fyrir Pál. Bredemeier hélt það og hann sá ekki eftir því að hafa fengið Pál til liðs við sig fyrir keppnistímabilið 1986-1987.
Páll féll strax vel inn í leik Düsseldorf og lék liðið til úrslita í bikarkeppninni við Grosswallstadt, sem vann fyrri leikinn heima; 16:15. Düsseldorf vann seinni leikinn heima 22:21, en það dugði ekki. Markatalan var jöfn úr leikjunum, 37:37, en Grosswallstadt vann bikarinn á fleiri mörkum skoruðum á útivelli.
Sérfræðingar Handball Magazin töldu Pál vera besta alhliða leikmanninn í „Bundesligunni“ og það sýnir kannski best hvað Páll var fjölhæfur leikmaður, er hann vann einvígið við Erhard Wunderlicht er Düsseldorf vann Milbertshofen á útivelli, 22:20. Páll fór á kostum og skoraði 10 mörk, en Wunderlicht skoraði 7 mörk. Páll skoraði mörkin í öllum regnbogans litum; úr hraðaupphlaupum, af línu, úr báðum hornum, með gegnumbrotum, langskotum og vítaköstum. Þá var hann harður í horn að taka í vörninni!
Páll varð fyrir því óhappi í byrjun apríl 1988 að meiðast á vinstri öxl; liðbönd slitnuðu og var hann frá á lokasprettinum, þegar Düsseldorf barðist um meistaratitilinn 1988 við Gummersbach og Kiel. Düsseldorf hafnaði í öðru sæti, tveimur stigum á eftir Gummersbach.
Þegar ljóst var að Páll væri á förum til Íslands, reyndi Düsseldorf allt til að halda honum og þegar rætt var við þjálfara liðsins Horst Bredemeier í þýska ríkissjónvarpinu; um óvæntan árangur Düsseldorf, sagði hann að Páll væri lykilmaður liðsins og allt yrði gert til fá hann til að vera áfram. „Páll er besti aðhliða leikmaðurinn í Þýskalandi,“ sagði Bredemeier.
Páll fór heim. Gerðist leikmaður með KR og tók þátt í undirbúningnum fyrir ÓL í Seoul.
Páll var einnig afar snjall knattspyrnumaður og höfðu nokkur erlend lið augastað á Páli, sem lék tvo landsleiki. Páll valdi handknattleikinn.
„Ísmaðurinn“ vinsæll í Gummersbach
Spænsku félögin Granollers og Atlético Madrid, ásamt þýsku liðunum Düsseldorf og Hofweier vildu fá Kristján Arason til sín, en hann stóð fast við ákvörðun sína að ljúka viðskiptafræðinni. Kristján sagði Nei! við danska liðið Ribe, sem Anders-Dahl Nielsen þjálfaði. Hann hélt síðan til Þýskalands í mars 1985 til að skoða aðstæður hjá Hameln og Hofweier. Þá hafði Flensburg samband við Kristján, sem tók boði 2. deildarliðsins Hameln og lék með því keppnistímabilið 1985-1986. Eftir HM í Sviss 1986, þar sem Kristján var fimmti markahæsti leikmaðurinn með 41 mark, sagði Mocsai Lajos, þjálfari Ungverjalands, að Kristján væri einn af tíu bestu handknattlkeiksmönnum heims.
Það kom fáum á óvart þegar Kristján fór til meistaraliðsins Gummersbach eftir HM; gerði tveggja ára samning eftir HM í Sviss. Kristján varð strax lykilmaður liðsins í vörn og sókn; og jafnframt vinsæll hjá stuðningsmönnum, sem kölluðu hann „Isi“ – einhvers konar stytting á „Ísmaðurinn.“
Kristján lék tvö keppnistímabil með Gummersbach og kórónaði dvöl sína hjá liðinu með því að fagna Þýskalandsmeistaratitlinum í Dortmund, eftir harða baráttu við Pál Ólafsson og félaga í Düsseldorf og Kiel. Fyrir lokaumferðina var Gummersbach með 39 stig, Düsseldorf 38 og Kiel 37 stig. Gummersbach gerði jafntefli í Dortmund, en Düsseldorf tapaði í Essen og Kiel tapaði í Grosswallstadt.
Pistlahöfundur var á sveitahóteli fyrir utan Gummersbach fyrir leikinn þýðingarmikla í Westfalen-höllinni í Dortmund sunnudaginn 1. maí; fyrir nákvæmlega 34 árum. Þá horfði ég á beina útsendingu frá Evrópusöngvakeppninni í Dublin í svart/hvítu sjónvarpi á hótelherbergi. Sverrir Stormsker og Stefán Hilmarsson fluttu lagið Sókrates, sem mér þótti flott. Flestir Evrópubúar tóku ekki eins vel á móti laginu, sem hafnaði í 16. sæti.
Þegar ég settist upp í bíl á sunnudagsmorgni og ók 77 km til Dortmund, hugsaði ég með mér. Kristján mun ná lengra en þeir félagar í Dublin; fyrsta sæti.
Það gerði Kristján, sem var strax tekin úr umferð, á eftirminnilegan hátt; varð Þýskalandsmeistari. Lokaþáttur leiksins var vítakastseinvígi Kristjáns og Ungverjans Peter Kovacs hjá Dortmund.
Kristján byrjaði að skora 17:16 úr vítakasti. Kovacs svaraði 17:17. Þegar 3,40 mín. voru til leiksloka var Kristján í sviðsljósinu. Spennan var mikil, er hann tók vítakastið. Hann sýndi mikinn kulda er hann sendi knöttinn í gegnum klofið á Kolodziej, markverði Dortmund; 18:17. Þarna tefldi Kristján djarft, en skot hans heppnaðist fullkomlega. Þegar 2,20 sek. voru eftir, var dæmt vítakast á Gummersbach. Kovacs gekk fram og sendi knöttinn yfir Andreas Thiel, markvörð Gummersbach. Þetta var síðasta mark leiksins, sem lauk 18:18.
Kristján lauk handknattleiksferli sínum í „Bundesligunni“ með því að skjóta sínu síðasta skoti í gegnum klofið á markverði og skora sitt síðasta mark í deildinni, en alls skoraði hann 200/40 mörk í 51 leik.
Sigurstemningin var mikil eftir leikinn; fyrst í Westfalen-höllinni í Dortmund, en síðan á ráðhússtorginu í Gummersbach, þar sem borgarstjórinn tók á móti leikmönnum Gummersbach ásamt um 5.000 borgarbúum, sem sungu söng Gummersbach, sem var að sjálfsögðu handboltasöngur.
„Það er betra að hafa Kristján með sér, en á móti,“ sagði Thiel markvörður. „Sem betur fer hef ég ekki haft það hlutverk að verja skot hans!“
Kristján fór til liðs við Teka á Spáni sumarið 1988 og hóf að æfa og leika með liðinu eftir Ólympíuleikana í Seoul, í byrjun október.
Þess má geta til gamans að blaðamenn frá Morgunblaðinu voru viðstaddir þegar Íslendingar fögnuðu meistaratitlum í Þýskalandi þrjú ár í röð. Gunnlaugur Rögnvaldsson í Essen 1986, Skúli Unnar Sveinsson í Essen 1987 og Sigmundur Ó. Steinarsson í Dortmund 1988.
Allir í hópi markahæstu manna
Þeir fjórir leikmenn sem yfirgáfu „Bundesliguna“ 1988, voru í hópi markahæstu leikmanna. Sigurður Valur (fór til Vals) var í sjötta sæti með 151/57 mörk, Alfreð (KR) í 14. sæti með 131/28 mörk, Kristján (Teka) í 18. sæti með 123/30 mörk og Páll (KR) í 22. sæti með 93/16 mörk.
Bjarni bestur í horni
Bjarni Guðmundsson, var ár eftir ár í efstu sætum yfir bestu hornamennina í kjöri blaðsins Handball Magazin, þó svo að hann léki í 2. deild.
Bjarni var eini Íslendingurinn sem var eftir í Þýskalandi 1988, sem leikmaður með 2. deildarliðinu Wanna Eickel. Hann fékk þó félagsskap keppnistímabilið 1988-1989, þar sem Aðalsteinn Jónsson, Breiðabliki, gerðist leikmaður með 2. deildarliðinu Schutterwald.
Þjálfarar hrifnir af Íslendingum
Frægir þjálfarar í Vestur-Þýskalandi voru afar hrifnir af Íslendingum, sem þeir sögðu mjög vinnusama og lögðu sig alla fram í verkefnin sem þeir tækju að sér. Þar í hópi voru landsliðsþjálfararnir Valdo Stenzel (1974-1982), Petre Ivanescu (1987-1989) og Horst Bredemeier (1989-1992).
Þegar Ivanescu kom með landslið Vestur-Þýskalands til Íslands í júlílok 1988; rétt fyrir ÓL í Seoul, sagði hann að það væri raunhæft að Ísland næði verðlaunasæti í Seoul. „Íslenska liðið er mjög þroskað og leikreynt og nær hápunkti í Seoul. Leikmenn eru á besta aldri.“
Ivanescu sagði að í liðinu væru margir góðir leikmenn á alþjóðlegum mælikvarða, sem væru aldir upp í Þýskalandi við mjög góðar aðstæður. „Arason, Gíslason, Ólafsson, Sveinsson og Hilmarsson eru nær fullkomnir leikmenn. Þá er hornamaðurinn litli; Guðmundsson (Guðmundur Þórður), ótrúlega skemmtilegur og Mathiesen er mjög sterkur. Með þessa leikmenn er raunhæft að Ísland nái verðlaunasæti í Seoul.“
Bogdan fór á taugum
Svo varð ekki. Ísland hafnaði í áttunda sæti. Hvað gerðist? Alfreð Gíslason hefur svarað þeirri spurningu: „Bogdan Kowalczyk, landsliðsþjálfari Íslands, fór hreinlega á taugum. Við vorum búnir að æfa eins og villimenn – allt of mikið, en þegar allt virtist á góðri leið, komu mistökin. Það var þegar við lögðum Sovétmenn að velli í Laugardalshöllinni, 23:21. Bogdan fór þá einfaldlega á taugum – hann óttaðist að við værum komnir á toppinn á röngum tíma. Eftir það byrjaði hann að láta okkur æfa þrek og aftur þrek, til að slá á mannskapinn – þannig að hann kæmi síðan aftur upp í Seoul. Bogdan gerði það svo hressilega, að leikmenn komu ekki upp aftur í Seoul. Hann kláraði algjörlega viljastyrk leikmanna. Ég fann það í Seoul að leikmenn voru andlega búnir, þannig að þeir voru hugmyndasnauðir. Þá urðu menn pirraðir og mikið bar á smámeiðslum.
Öll umgjörðin í kringum Ólympíuleikana skapaði mikla spennu – það voru miklar kröfur gerðar en síðan kom martröðin í Ólympíuþorpinu, sem voru eins og fangabúðir. Það var langt á æfingar, það var langt í leiki – og það var langt í þann árangur, sem við vonuðumst eftir. Andrúmsloftið var rafmagnað og lamandi.“
Það vakti athygli í Seoul, hvað Bogdan notaði lítið Sigurð Val og Pál Ólafsson, sem voru í hópi öflugustu handknattleiksmanna sem léku í Þýskalandi.
Kynslóðaskipti
Jóhann Ingi sagði eitt sinn við pistlahöfund að góðir íslenskir leikmenn væru eftirsóttir í Vestur-Þýskalandi og hann hafði trú á að Íslendingar eigi alltaf eftir að vera í sviðsljósinu í „Bundesligunni.“ um ókomna tíð. „Vestur-Þýskaland hefur verið og verður alltaf annað heimaland íslenskra handknattleiksmanna,“ sagði Jóhann Ingi við þann sem þetta skrifar í byrjun maí 1988, þegar Alfreð, Kristján, Sigurður Valur og Páll fóru og engin Íslendingur var í „Bundesligunni.“
Kynslóðaskipti urðu þá. Til Vestur-Þýskalands fóru margir snjallir leikmenn, sem sagt verður frá í næsta pisli. Það var ekki fyrr en 1991 að næstu leikmenn frá Íslandi hófu að leika í „Bundesligunni“; Sigurður Bjarnason, Stjörnunni, Héðinn Gilsson, FH og Jón Kristjánsson, Val. Eftir þeim komu leikmenn eins og Júlíus Jónasson, Val, Patrekur Jóhannesson, Stjarnan/KA, Róbert Sighvatsson, Aftureldingu, Konráð Olavson, KR, Dagur Sigurðsson, Val, Ólafur Stefánsson, Val, Geir Sveinsson, Val, Páll Þórólfsson, Fram/Afturelding og Julian Róbert Duranona, KA.
Við fylgjumst með þeim í næsta pistli.
Auf Wiedersehn
Sigmundur Ó. Steinarsson.
Fyrri greinar Sigmundar sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:
Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi
„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“
Geir himnasending fyrir Göppingen
Axel og Kristbjörg – meistarahjón!
„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!
Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!
Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!