Benedikt Gunnar Óskarsson og Sveinn Jóhannsson skoruðu fjögur mörk hvor, Sigvaldi Björn Guðjónsson þrjú og Arnór Snær Óskarsson tvö þegar Kolstad vann Drammen á útivelli í norsku úrvalsdeildinni í kvöld, 36:29. Bræðurnir Arnór Snær og Benedikt Gunnar gáfu þrjár stoðsendingar hvor.
Ísak Steinsson varði fimm skot í marki Drammen, 26%, þann tíma sem hann stóð vaktina.
Kolstad er í öðru sæti úrvalsdeildarinnar með 40 stig að loknum 22 leikjum. Elverum er stigi fyrir ofan eins og undanfarnar vikur. Drammen er í 5. sæti með 25 stig.
Sigurjón stóð fyrir sínu
Sigurjón Guðmundsson varði 12 skot í marki Charlottenlund í gær þegar liðið tapaði með eins marks mun, 25:24, á heimavelli fyrir Ryger Stavanger í næst efstu deild norska handknattleiksins í dag.
Sigurjón var á vaktinni í markinu allan leikinn. Charlottenlund er í fjórða sæti deildarinnar með 30 stig eftir 20 leiki, fjórum stigum á eftir Sanderfjord TIF og á auk þess leik til góða.
Charlottenlund er venslalið Kolstad og getur þar með ekki færst upp í úrvalsdeildina eins og sakir standa.
Storhamar er efstur
Axel Stefánsson og liðsmenn hans í Storhamar eru áfram í efsta sæti norsku úrvalsdeildarinnar í kvennaflokki. Storhamar vann Molde 33:29, á útivelli í dag. Storhamar hefur 35 stig í efsta sæti eftir 19 leiki.
Fredrikstad Bkl, sem Elías Már Halldórsson þjálfar í úrvalsdeild kvenna út leiktíðina gerði jafntefli við Romerike Ravens, 25:25. Fredrikstad Bkl situr í níunda sæti af 13 liðum sem eftir eru í deildinni í kjölfar gjaldþrots Vipers Kristiansand í upphafi ársins.